Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Af máli hans mátti ráða að þetta væri ekki heildstæð stefna hvað varðar Atlantshafsbandalagið, að ákveðnir þingmenn hefðu sína stefnu. Hv. þingmaður svaraði reyndar ekki spurningunni um varnarsamning við Bandaríkin sem ég tel raunverulega vera mikilvægari en aðild að NATO. Atlantshafsbandalagið er eiginlega varnarregnhlíf Bandaríkjanna yfir Vestur-Evrópu og öðrum NATO-ríkjum. Þetta er langsamlega öflugasta herveldið, með 800 milljarða bandaríkjadollara til hernaðarmála sem er meira en nánast öll önnur hernaðarveldi samanlagt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hver er afstaða hans og þingflokks Pírata til varnarsamningsins? Ef ekki NATO, ef ekki varnarsamningur við Bandaríkin, hvernig á þá að verja Ísland, ef ekki á að byggja á þessu tvennu? Ekki gerum við það sjálf, við erum ekki þjóð með her. Hvernig á varnarmálum Íslands að vera háttað ef ekki með varnarsamningi við Bandaríkin og aðild að Atlantshafsbandalaginu?