Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér tókst í millitíðinni að fletta upp hver stefna Pírata í málefnum NATO er. Hún er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að rödd þjóðarinnar fái að heyrast hvað varðar áframhaldandi þátttöku Íslands í NATO og í öðru varnarsamstarfi. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það að tala fyrir friði innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.“

Hvað varðar hina spurningu hv. þingmanns, um afstöðu til varnarsamningsins og NATO, hvernig ég persónulega lít á það, þá get ég náttúrlega ekki svarað fyrir alla þingmenn. Ég hvet hv. þingmann bara til að spyrja alla þingmenn Pírata, það er ekkert mál, við erum ekki það mörg. Til gamans má geta þess að það var nákvæmlega aðildin að NATO og gerð varnarsamningsins sem einn af mínum forfeðrum barðist hvað harðast gegn hér fyrir rúmum 70 árum. (EÁ: Hvað hét hann?) Einar Olgeirsson. Hann sleit einmitt ríkisstjórnarsamstarfi kommúnista og Sjálfstæðisflokksins út af þessu.

Persónulega tel ég allt alþjóðasamstarf vera af hinu góða. Rétt eins og segir í stefnu okkar er mikilvægt að það séu líka einhverjir sem tala fyrir borgaralegum og friðsamlegum lausnum, að það sé ekki bara verið að horfa á stríðstækin og tólin þegar kemur að þessum málum. En ég tek fram að ég greiddi t.d. atkvæði með því að Svíþjóð og Finnland fengju að vera með í NATO.