Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir nákvæmlega þetta. Ég er sammála honum að mörgu leyti. Minn fyrirvari — ég tel reyndar mikilvægt og vann þannig í nefndinni að við yrðum öll saman á nefndarálitinu af því að mér finnst skipta máli að það séu skilaboðin, að utanríkismálanefnd sé samhent hvað þetta varðar. En ég lýsti því líka yfir, og geri það hér, að fyrirvari minn snertir einmitt varnar- og öryggismálin í þjóðaröryggisstefnunni. Mér finnst þau fá of lítið vægi, það er bara þannig.

Í endurskoðun á þessu plaggi, sem hefur staðist ágætlega frá 2016, vega varnar- og öryggismálin bara allt of lítið. Það er út af viðkvæmni innan stjórnarflokks, eins tiltekins stjórnarflokks. Það kemur okkur ekkert á óvart en það sem verra er er að Sjálfstæðisflokkurinn lúffar í þessu enn og aftur til þess að halda ríkisstjórninni saman. Segjum það bara eins og það er. Það er viðkvæmni innan ríkisstjórnarflokkanna og þá er lægsti samnefnarinn alltaf tekinn, alltaf sá langlægsti.

Við erum með plagg sem er fínt til að halda ríkisstjórninni saman en mér finnst það ekki nógu gott til að standa vörð um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar sem taka tillit til varnar- og öryggismála landsins, og þá meina ég hinna hefðbundnu varnar- og öryggismála landsins. Að því lýtur fyrirvari minn.

Það er gott að hv. þingmaður benti á skýrslu þjóðaröryggisráðs. Mikilvægi Íslands hefur aldrei verið meira á síðari tímum. Spennan hefur aukist. Bíddu, hvar er verið að taka tillit til þess í þjóðaröryggismálum? Hvar er viðbótin? Enn og aftur er þetta auðvitað gert til þess að ekki verði eins mikill sársauki hjá a.m.k. hluta þingflokks Vinstri grænna við að greiða þessari tillögu atkvæði sitt. En mér finnst vanta metnaðinn, vanta framsýnina, vanta þorið. (Forseti hringir.) Við þurfum að leggja til hliðar þann tepruskap sem allt of mikið hefur litað umræðu um varnar- og öryggismál.