Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hluti af þessu með stefnuna og uppbyggingu hennar, hv. þingmaður, er einmitt að skýra verkferla. Við tökum það fram, bæði í þessari breytingartillögu en líka í tillögu til þingsályktunar um það hvernig við ætlum að virkja varnarsamninginn. Ég sagði það alveg skýrt þegar ég mælti fyrir þeirri tillögu að við yrðum að útbúa skýra verkferla í stjórnkerfinu sem snerta varnir á ófriðartímum. Það er nefnilega ekki alveg skýrt hvernig við virkjum stuðning Bandaríkjanna í gegnum varnarsamninginn. Það liggur ekki fyrir. Við spurðum að þessu í nefndinni. Það er hluti af því að búa til varnarstefnu að stjórnsýslan sé með þetta allt á hreinu. Þetta kallar á samtal utanríkisráðuneytisins við Bandaríkin. Þetta kallar á samtal við okkar vinaþjóðir.

Aðrar þjóðir hafa alveg skýra varnarstefnu. Ég skil ekki þessa viðkvæmni, að við getum verið með netöryggisstefnu, að við getum verið með alls konar stefnu, matvælastefnu o.s.frv., en við getum ekki verið með varnarstefnu og það er flokkur í ríkisstjórn sem einu sinni kallaði sig hægri flokk. Hvers konar er þetta eiginlega? Ég vonast til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og vonandi Framsóknarflokksins líka fái að fara svolítið lausbeislaðir inn í atkvæðagreiðslu þegar við greiðum atkvæði um nákvæmlega þetta. Ég vona það.

Við þekkjum líka hvernig það er, sem er svo sem ekkert verra, það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur, það getur vel verið að utanríkisráðherra fari af stað við að vinna varnarstefnu á morgun eða hinn eftir að búið er að klára atkvæðagreiðslu og það þarf bara að vinna þá stefnu. En það er eins og það þurfi alltaf að ýta við stjórnarflokkunum þegar kemur að þessum málum. Það er út af því að þeir klára málin ekki sín á milli eða fara leiðina sem er undir hatti lægsta samnefnara. Það er algjörlega óboðlegt þegar kemur að varnar- og öryggismálum.