Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við erum hér í síðari umræðu um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var árið 2016. Í henni segir að hana skuli endurskoða á fimm ára fresti. Það er aðeins meira liðið en fimm ár frá því að tillagan var samþykkt en Covid og fleira hefur gert það að verkum að þetta hefur tafist. En hingað erum við komin til að ræða endurskoðun á þessari stefnu.

Frú forseti. Mig langar að tala á breiðari grunni og kannski aðeins öðrum forsendum en í það minnsta sum hafa talað hér í dag. Að mínu mati er það alger forsenda þess að tryggja frið og öryggi, ekki bara hér á Íslandi heldur í heiminum öllum, að tryggja þannig heim að allir íbúar jarðar geti búið við mannsæmandi kjör. Það er ljóst að við þurfum að deila auðlindum heimsins, það þarf að jafna kjör fólks og það þarf að sjá til þess að völdum og gæðum sé dreift jafnt á milli ríkja og innan þeirra. Þar þarf að taka tillit til þátta eins og stétta, kynja og þjóðernishópa. Við erum gríðarlega langt frá því að vera á þeim stað í dag sem veröld að við öll búum við mannsæmandi kjör. Það er eitt af því sem gerir heiminn hættulegan og gerir það að verkum að í honum er óþarfa óstöðugleiki.

Við erum líka að glíma við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Ég held að við séum flest sammála um það að jafnvel þó svo að Ísland sé með metnaðarfull markmið sem það er að vinna að, sem og margar aðrar þjóðir heims, þurfi að gera mun betur. Við þurfum að gera miklu betur ef okkur á að takast að takast á við loftslagsbreytingarnar. Í það þarf fjármagn, sem í dag er að mínu mati sóað í hernað, í vopn, í þróun á nýjum og öflugum tegundum kjarnorkuvopna. Það er verið að setja peninga í það sem stundum er kallað varnir fyrir heiminn. Ég vil tala fyrir því hér í dag að með því sé einmitt verið að setja fjármagn í þætti sem auka hættuna en peningarnir fari ekki í það að bæta kjör fólks og berjast gegn loftslagsbreytingum.

Mér finnst þær breytingar sem lagðar eru til við þjóðaröryggisstefnuna tala ágætlega inn í heim þar sem mannréttindum er ógnað, þar sem hryðjuverk og skipulögð glæpastarfsemi er á uppleið á allt of mörgum stöðum, þar sem orkuöryggi og fjármála- og efnahagsöryggi er ótryggt, þar sem við búum við stöðuga ógn af netárásum, þar sem hreinlega hinum lýðræðislegu gildum sem við höfum viljað tala fyrir er ógnað. Þess vegna finnst mér gott að í þessari tillögu til breytingar á þjóðaröryggisstefnunni sé verið að ávarpa þessa hluti.

Frú forseti. Ég ætla ekki að tipla fram hjá því að þegar tillaga til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu var samþykkt þá greiddi ég ekki atkvæði með henni. Mér fannst gríðarlega jákvætt að þar var verið að fjalla um málin út frá breiðu sjónarhorni þar sem nefndir voru margir þeir þættir sem ég tel að standi því fyrir þrifum að hér á jörðinni geti þrifist gott samfélag. Þar eru hins vegar atriði, svo sem vera Íslands í NATO og að við byggjum á varnarsamningnum við Bandaríkjamenn, sem gerðu það að verkum að ég studdi hana ekki. Vegna þess hins vegar hvernig tillagan er byggð upp, með mörgum atriðum sem hafa jafnt vægi sem eru þar nefnd, þar á meðal að friðlýsa íslenska lögsögu fyrir kjarnorkuvopnum, að tekið sé á netöryggismálum og tekið á orkuöryggismálunum og öðrum þáttum sem ég hef farið hér yfir að ég telji að tryggi hið raunverulega öryggi, þess vegna sat ég hjá þegar tillagan var afgreidd.

Það geisar núna hræðilegt stríð í Úkraínu þar sem Rússar réðust inn í fullvalda ríki. Við sjáum í fréttum á hverjum einasta degi hvernig fólk, almennir borgarar, þjáist og líður vegna stríðsins sem þar geisar og það er að sjálfsögðu á ábyrgð Rússa sem hófu innrásina. Það sem mér finnst skipta máli og hefur komið í ljós í þessu stríði, líkt og öllum öðrum stríðum, er að það eru saklausir borgarar sem verða þar verst úti. Eina raunhæfa leiðin til lengdar til að tryggja öryggi er með því að koma í veg fyrir að til átaka komi. Ég veit að þetta eru ekkert sérstaklega vinsæl eða kannski eftirsótt sjónarmið að tala fyrir, sérstaklega ekki á stríðstímum. Ég tel hins vegar að það sé einmitt nauðsynlegt núna að tala fyrir friði, að tala fyrir afvopnun og að tala fyrir því að unnið sé að samningum og friðsamlegum lausnum vegna þess að það er þannig sem öllum stríðum lýkur á endanum. Það er skylda okkar sem samfélags, skylda okkar í alþjóðasamfélaginu að tala fyrir því og beita okkur á þann hátt að þetta megi gerast sem fyrst til þess að sem fæstir almennir borgarar líði enn meiri þjáningar vegna stríðsins.

Ég er einfaldlega ósammála þeim sem hér hafa talað í dag og sagt að þjóðaröryggisstefnan, eða sú endurskoðun sem hér er lögð til, taki ekki á stöðu mála eins og hún er í heiminum í dag. Ég tel hana einmitt gera það með breiðri varnarskírskotun, með því að tala fyrir því að Ísland taki þátt í alþjóðlegri samvinnu. Það er ekki verið að taka á því sem ég persónulega myndi helst vilja sjá, sem er úrsögn Íslands úr NATO, en fyrir því er ekki þingmeirihluti og þá verður bara svo að vera en ég held áfram að tala fyrir því sjónarmiði. Hins vegar tel ég að hér sé verið að leggja til breytingar, það sé verið að skerpa á atriðum sem gera Ísland öruggara í alþjóðasamhenginu. Svo er það auðvitað eilífðarmál að halda áfram að vinna að því að gera heiminn öruggari. Ég tel mikilvægast í því að tala fyrir málefnum friðarins, að tala fyrir afvopnun og að tala fyrir því að það sé gert samkomulag, að það sé talað fyrir friðsamlegum lausnum í hvívetna. Þess vegna finnst mér þessi breyting sem hér er lögð inn bara tala ágætlega inn í það. Svo þurfum við auðvitað að halda áfram að vinna að því sem skapar hið raunverulega öryggi í heiminum öllum.