Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég heyrði rétt þá hafði hv. þingmaður, eðlilega, eins og ég, áhyggjur af loftslagsbreytingum. Við sjáum það að við erum í rauninni með tvíþætt markmið varðandi losun og loftslagsbreytingarnar, annars vegar að eiga hlutdeild í markmiði ESB, 29% miðað við 2005-losunina til 2030, og síðan erum við með okkar sjálfstæða markmið sem við ráðum sjálf yfir og eigum að geta uppfyllt. Telur hv. þingmaður að við séum komin þangað að við getum gert það og telur hv. þingmaður að þetta sé raunhæft miðað við þær aðgerðir sem hefur verið farið í? Af því að allir sérfræðingar sem maður talar við segja að í dag sé þetta frekar óraunhæft. Við vorum bara fyrir tveimur árum síðan að losa meira heldur en hitt. Það er auðvitað áhyggjuefni og loftslagsmálin eru eðlilega sett fram í tengslum við þjóðaröryggi. Þannig að í fyrsta lagi: Náum við þessu eins og þetta lítur út fyrir núna? Í öðru lagi erum við að sjá það, sama hvað hver segir, að loftslagsmálin eru í algerum forgangi hjá ESB og ég er þeirrar skoðunar að starf okkar innan alþjóðastofnana og í fjölþjóðasamstarfi muni skila meira í baráttunni fyrir litla þjóð eins og okkur Íslendinga. Getur hv. þingmaður að einhverju leyti verið sammála mér þar? Í þriðja lagi langar mig einfaldlega að spyrja: Skildi ég hv. þingmann rétt, að hún muni núna greiða atkvæði með þessari þjóðaröryggisstefnu, m.a. með tilliti til þess, og þá verður hv. þingmaður bara að leiðrétta mig, að hafa ekki greitt atkvæði með umsókn Svía og Finna inn í Evrópusambandið?