Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um allt þegar kemur að utanríkismálum eða öryggis- og varnarmálum en ég hygg að við séum algjörlega sammála um mikilvægi þess að takast á við loftslagsbreytingar. Okkur kann í einhverjum tilfellum að greina á um aðferðir en ég hygg að þegar kemur að hinu stóra yfirliggjandi máli, sem er það að bæði við og aðrar þjóðir verðum að axla ábyrgð og vera með aðgerðir og ná árangri þegar kemur að loftslagsmálunum, þá séum við sammála.

Já, ég held að Ísland geti alveg uppfyllt sín markmið. Ég held að við þurfum auðvitað öll, bæði við sem einstaklingar, fyrirtæki í landinu og stjórnvöld, að vinna að því til að það takist. Ísland er með metnaðarfull markmið og ég held að það sé full ástæða til að gera ráð fyrir því að við ekki bara getum heldur verðum að ná okkar markmiðum og jafnvel að auka í.

Ég er sammála því að við eigum að vinna þar þétt með öðrum þjóðum, bæði í Evrópu og öðrum löndum. En ef hv. þingmaður var að fiska eftir því að vita hvort ég vildi gera það í gegnum Evrópusambandsaðild þá er það ekki það sem ég er að tala fyrir heldur að við vinnum þétt saman með öðrum þjóðum því að þetta er alheimsvandi og við verðum að vinna saman.