Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta. Mér sýnist m.a. á öllu frá Umhverfisstofnun, án þess að það sé sagt berum orðum, að þá bendi framreikningar stofnunarinnar ekki til þess að unnt verði að draga úr losun um 55% fyrir árið 2030, þ.e. ef við miðum við staðla Evrópusambandsins en ekki einhverja heimatilbúna staðla. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum mikið gegnsæi í þessum stöðlum og miðum við alþjóðlega staðla en ekki eitthvað sem við getum teygt og togað til að þykjast hafa uppfyllt einhver markmið sem við erum síðan langt fjarri. Þess vegna held ég einmitt að aðhaldið í gegnum fjölþjóðasamstarf skipti mjög miklu máli þannig að við förum ekki alltaf einhverjar leiðir sem eru bara til heimabrúks og erum þá ekki að gera það sem við þurfum að gera og það er að taka miklu stærri skref í loftslagsmálum og hvernig við tæklum loftslagsvandann, bara þannig að það sé sagt.

Stór hluti af því sem felst í tillögu okkar Viðreisnar um að meta hvort hagsmunum Íslands — og ég er ekki að tala um að við förum bara beint inn í það að fara inn í Evrópusambandið, ég náttúrlega tala fyrir því, en það sem ég er að segja er að ríkisstjórnin geti alla vega sammælst okkur um að við förum í það að meta okkar hagsmuni. Er þeim betur borgið með því að fara í gegnum tvíhliða samninga? Sem ég held ekki og er sannfærð um að svo sé ekki. Eða er betra að við förum í fjölþjóðlegt samstarf? Og hvaða atriði verðum við þá að fara í að meta; loftslagsmálin, varnarmálin, efnahagsmálin, lýðræðismálin, friðarmálin, af hverju við erum að taka þátt í Evrópusambandinu? Það er ekki bara gjaldmiðillinn, þótt hann sé risahagsmunamál upp á almenn lífskjör, ekki síst heimilanna. Það er ekki síður hitt, út á hvað sameinuð Evrópa gengur og ekki síst út á frið og öryggi. Til þess var nú sambandið stofnað upphaflega.