Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og ég sagði áðan þá held ég að við hv. þingmaður séum sammála um að við verðum að ná árangri í loftslagsmálunum. Auðvitað gerist það fyrst og fremst með því að hver þjóð fyrir sig sé með aðgerðir sem draga raunverulega úr losun. Auðvitað eigum við að vinna með öðrum þjóðum, líkt og ég sagði í mínu fyrra andsvari, en þetta snýst svo auðvitað um þær aðgerðir sem við förum í, hvert ríki fyrir sig, því að það er auðvitað þannig sem hinn raunverulegi samdráttur verður.

Mér finnst það mikilvægt — og mig langaði bara að draga umræðuna aðeins aftur að þjóðaröryggisstefnunni og þá skiptir það máli hvernig við vinnum að losuninni. Hún verður að vera sanngjörn, umskiptin verða að vera sanngjörn. Það skiptir máli til þess að tryggja öryggi í heiminum. Það er ekki hægt að vera með aðgerðir sem eru þannig að þær bitna verst á þeim fátækustu í heiminum því að það mun auka enn frekar á óstöðugleika og auka líkurnar á stríði og samkeppni um auðlindir. Það getur, líkt og önnur stríð, einungis leitt til þess að það eru almennir borgarar sem á endanum tapa á því. Þannig að hið stóra öryggismál er að skapa hér sanngjarnan heim (Forseti hringir.) þar sem ríkir friður.