Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og mikilvæga. Ég vil spyrja hv. þingmann af því að hún talar um að í NATO liggi hornsteinar okkar, og ég er algerlega sammála hv. þm. um NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Aðrar þjóðir innan NATO eru hins vegar að endurskoða mjög alla sína þætti þegar kemur að vörnum. Telur hv. þingmaður vera nægilega langt gengið í þessari þjóðaröryggisstefnu miðað við núverandi aðstæður, miðað við það ákall sem er á Vesturlöndum og ekki síst í Evrópu, að taka svolítið til hjá sér og skerpa sig þegar kemur að varnar- og öryggismálum? Hv. þingmaður kemur úr Sjálfstæðisflokknum og ætti að átta sig á mikilvægi þess að ræða hér varnir, hreinar varnir, ekki bara almannavarnaáætlunina sem er uppleggið af hálfu forsætisráðherra. Telur hv. þingmaður að það þurfi að ganga lengra í því og m.a. móta stefnu, eins og ég hef lagt til samhliða þessu máli?