Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:17]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega síðara andsvar. Hv. þingmaður segir mig vera að taka tillit til einhverra ákveðinna — ég veit ekki með það. Við gerum þarna ákveðnar breytingar, eins og hv. þingmaður minnist á, og vísum mjög ákveðið til grunnstefnu NATO. Við erum stoltur stofnaðili að NATO og erum engir eftirbátar í því samstarfi. Við höfum ekki verið það og við munum ekki verða það. Ég hef ekki orðið vör við það að vinir okkar í öðrum flokkum, ýmsum öðrum flokkum, ólíkum flokkum, hafi átt í einhverjum vandræðum með þetta. Það er bara orðin mikil samstaða um þetta. Auðvitað hafa orðið breytingar í þessa veru víða annars staðar, m.a. í Evrópu og hjá vinaþjóðum okkar á Norðurlöndunum. Það sem mér þótti mikilvægt umfram margt og við urðum ásátt um í nefndinni var samstaða og það var lendingin. Mikilvægast finnst mér þó að við horfum til aðgerða, þeirra aðgerða sem við höfum gripið til og munum áfram grípa til og ég hvet hv. þingmann til að fylgjast grannt með því hvort við séum ekki að standa okkur þegar kemur að varnarsamstarfi og samstarfi í öryggis- og varnarmálum á Íslandi.