Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þó að ég sé ekki sammála öllu. Mér fannst togast á í honum það sem hann setur fram og m.a. að það þurfi ekki að meta varnir okkar.

Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það færi ekki betur á því að við myndum sjálf styrkja og efla þekkingu okkar á varnarmálum þannig að við myndum meta okkar varnarþörf sjálf en ekki vera háð öðrum hvað það varðar, þó að við gerum það að sjálfsögðu í samstarfi.

Í öðru lagi ætlar hv. þingmaður að taka upp samtal við þingmenn sem við erum að fara að hitta á Bandaríkjaþingi í lok marsmánaðar, en í tillögu okkar í Viðreisn sem fjallar um aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum þá drögum við einmitt fram hvernig við getum skýrt verkferla í stjórnkerfinu sem snerta varnir landsins, m.a. á ófriðartímum, því að það er alveg óskýrt í dag hvernig við virkjum ákveðna hluti, hvernig við bætum varnir, hvaða samtal hefur átt sér stað. Þetta er hluti af því að móta hér almennilega varnarstefnu.

Ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður er í ríkisstjórnarmeirihlutanum og hv. þingmenn verða að tipla á tánum og reyna að rökstyðja það að þetta sé bara alveg þokkalegt. Ég tel ekki svo vera. Ég virði hins vegar það sem hv. þingmaður segir. En við erum ekki með skýra verkferla í stjórnkerfinu, hvorki gagnvart Bandaríkjamönnum á grunni varnarsamningsins né á öðrum stöðum, um hvernig við ætlum að byggja upp stjórnsýsluna, stefnuna, fjármögnun og fleira í tengslum við varnir okkar. Þannig að ég tel að hv. þingmaður verði svolítið að útskýra af hverju þetta liggur þá ekki bara skýrt fyrir í stefnu, svona samtal sem hv. þingmaður ætlar sér að eiga við þingmennina. Af hverju liggur það ekki bara einfaldlega fyrir hvernig við víkkum út varnarsamninginn, hvernig við látum hann taka til ákveðinna þátta sem geta tilheyrt vörnum en gerum það ekki bara í forbífarten á tilfallandi fundi þingnefnda í Bandaríkjunum?