Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er engin viðkvæmni af minni hálfu að ræða um loftrýmisgæsluna. Ég er alveg talsmaður þess að hún verði aukin og ég hef jafnframt komið því á framfæri að ég tel að það eigi að hefja viðræður við Bandaríkin um að þau sendi þyrlusveit til að þjónusta þær vélar sem þau eru sjálf með. Landhelgisgæslan hefur tekið að sér þetta hlutverk og það eru orðin fjölmörg hlutverk sem hún þarf að sinna. Ég teldi eðlilegt að Bandaríkjamenn skoðuðu það að vera með þyrlusveit hér þegar þeir sinna þessu kafbátaeftirliti og svo jafnframt þegar er loftrýmisgæsla. Það er engin viðkvæmni af minni hálfu, hv. þingmaður, gagnvart því að hér yrði loftrýmisgæsla allt árið.

Nú eru fleiri þættir sem skipta máli í þessu öllu og hv. þingmaður spyr um viðbrögðin ef ráðist yrði á landið. Þá virkjast náttúrlega okkar samstarfsaðilar innan NATO. Við þekkjum það að árás á eitt land er árás á þau öll þannig að við erum í þessu varnarbandalagi til að sjá til þess að landið sé þá varið ef hér brysti á styrjöld, sem við vonum að verði nú aldrei.

Ég vil bara að lokum segja það við hv. þingmann að ég skildi Viðreisn þannig að flokkurinn legði áherslu á í sínum málflutningi að það væri hér viðvarandi herafli. Ég sé ekki þá ógn fyrir okkur en hins vegar er ég eindreginn stuðningsmaður þess að styrkja loftvarnir landsins og sjálfsagt og eðlilegt að taka það upp hvort það sé ekki eðlilegt að hér verði loftrýmisgæsla allt árið. (Forseti hringir.) Loftrýmisgæslan hefur gefið góða raun og þetta er eitt af þessum atriðum sem við getum bara einmitt opnað og rætt á fundi nefndarinnar í Washington núna í lok næsta mánaðar.