Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að staldra við sem hafa komið fram í þessari umræðu. Ég er búinn að vera dálítið hugsi eftir að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lagði fram þessa hugmynd sína um að mótuð yrði sérstök varnarstefna. Ef maður rifjar upp hvernig þessi þjóðaröryggisstefna varð til 2016 þá hafði á þeim tímapunkti átt sér stað heilmikil umræða í samfélaginu um breitt öryggishugtak, það yrði víkkað út og horfið frá þessu gamaldags niðurnjörvaða, hernaðartengda öryggishugtaki og Ísland myndi færa sig í átt að nútímalegri og manneskjulegri nálgun á öryggi almennings, öryggi innviða og, eins og birtist í þessari tillögu, að styrkja aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og byggja upp innviði lýðræðisins. Þetta eru líka öryggisatriði.

Þessi útvíkkun á öryggishugtakinu — ég er aðeins að hugsa upphátt hérna, forseti — ég velti fyrir mér hvort við séum kannski farin að grauta hlutum dálítið saman vegna hennar. Hún átti kannski sinn stað í umræðunni 2016, á tíma þegar herinn var farinn og fólk sá litla framtíð fyrir einhver hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli. En það hefur orðið alger umpólun í því á árunum sem eru liðin síðan. Það að hér komi fram tillaga um að sett verði sérstök varnarstefna endurspeglar einhvern veginn breyttan kúrs varðandi umræðu um öryggismál. Ég er aðeins farinn að hugsa, og aftur er þetta ekki einhver niðurstaða heldur er ég að hugsa upphátt, hvort við þurfum að stía þessu aðeins í sundur aftur og halda almannaörygginu sér og gamaldags varnarmálunum sömuleiðis. Það sem við erum að reka okkur á æ ofan í æ er að varnarmálum fylgir leynd á einhverjum skala sem engum þeim sem vill standa vörð um öfluga, gagnsæja og sterka stjórnsýslu og lýðræðislega starfshætti líður vel með. Þetta er eitthvað sem ríki láta sig hafa þegar þau standa fyrir varnartengdum framkvæmdum og aðgerðum, en að vera með þessa leyndarklessu utan í öllum þessum mikilvægu grunninnviðum almannaöryggisins — ég velti fyrir mér hvort það geti smitað. Það er smit sem við ættum ekki að sætta okkur við.

Mig langar að nefna dæmi um leyndina eins og hún hefur birst okkur í þingsal á síðustu árum. Uppbygging innviða á Keflavíkurvelli, uppbygging hernaðarmannvirkja, er mjög mikil. Það er verið að byggja upp aðstöðu fyrir kafbátaleitarvélar, svefnskála fyrir 1.000 hermenn, birgðastöð og allan fjárann fyrir tugi milljarða. Hvernig komumst við að því hér í þingsal? Við komumst að því með breytingartillögu sem fjárlaganefnd læddi inn vorið 2019 um að færa 300 millj. kr. úr alþjóðlegri þróunarsamvinnu yfir í varnarmál vegna uppsafnaðrar viðhaldsþarfar og nauðsynjar á því að tryggja óbreytta starfsemi á Keflavíkurvelli. Þessi peningur var mótframlag Íslands í fyrstu af þessum stóru framkvæmdum Bandaríkjahers uppi á velli; engin lýðræðisleg umræða og algjör leynd þangað til plokkað var í þetta úr ræðustól. Þá allt í einu dróst fram þessi langi þráður sem fjölmiðlar síðan röktu áfram og hefur heldur betur undið upp á sig.

Annað dæmi er viðvera herliðs. Það er búið að nefna það hér í nokkrum ræðum að ekki sé stefnt að varanlegri viðveru herliðs á Keflavíkurvelli, en hún er varanleg og hefur verið um árabil. Á hverjum einasta degi eru hundruð hermanna á Keflavíkurvelli að sinna ólíkum verkefnum. Mest allt árið er kafbátaeftirlit, stóran hluta ársins eru einhverjar hersveitir í loftrýmisgæslu og svo er alls konar annað í gangi. Hvernig kom þetta fram? Þetta var ekki ákveðið með einhverri lýðræðislegri umræðu hér í sal eða fyrir opnum tjöldum, eins og á að taka stórar ákvarðanir á sviði stjórnmálanna. Nei, þetta var væntanlega ákveðið í utanríkisráðuneytinu og við fengum að vita af þessu hér á þingi í svari sem utanríkisráðherra birti við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur. Svarið birtist í nóvember 2018 og þar var þessi sakleysislega setning sem sagði að viðveran hefði verið frá einhverjum ákveðnum fjölda fyrir nokkrum árum upp í það að vera dagleg viðvera síðustu þrjú árin. Því fengum við árið 2018 að vita að í þrjú ár hefðu hermenn verið daglega að störfum á herstöðinni sem við héldum öll að hefði verið lokað, en hún var bara í fullum rekstri. Þetta er framkvæmd sem gengur í berhögg við allar kröfur sem við gerum um upplýsta umræðu, það er eiginlega ekki hægt að ímynda sér skýrara dæmi um það.

Ég velti fyrir mér, svo ég reyni að sjá þetta í jákvæðu ljósi og reyni að lesa inn í ákvarðanirnar meinlausan tilgang þeirra sem þær taka: Segjum sem svo að þessar ákvarðanir séu ræddar mjög mikið, öllum steinum velt við og farið yfir þetta á ótal fundum, að þetta sé rætt á milli íslenska ráðuneytisins og þess bandaríska, farið með þetta út til Brussel og á alls konar nefndarfundi í utanríkismálanefnd og hvaðeina. Vandinn er sá að öll þessi samtöl eiga sér stað milli aðila sem eru með öryggisvottun sem slær leyndarhjúpi um allt sem þeir ræða. Því á sér stað alveg heljarinnar umræða um fyrirætlanirnar, en hún á sér stað á svo lokuðum vettvangi að fólkið sem ætti með réttu að taka ákvarðanirnar fyrir opnum tjöldum, fulltrúar almennings, veit ekkert um þetta. Fólkinu sem tekur ákvarðanirnar líður eins og það hafi átt hellingsumræðu um þetta og kemur þá jafnvel af fjöllum þegar við hér á þingi erum forviða yfir því að frétta, þremur árum seinna, að allt í einu hafi bara verið ákveðið að endurræsa í raun herstöðina á Keflavíkurvelli. Það var gert 2015 og síðan þá hefur hún verið í stöðugum vexti.

Ég velti þessu upp vegna þess að leyndarhyggjunni fylgir menning sem er ekki endilega jákvætt að smitist yfir á framkvæmd almannavarna, netöryggis og á framkvæmd allra þeirra ólíku þátta útvíkkaðs öryggishugtaks sem þjóðaröryggisstefna nær utan um. Hér í fyrri umræðu þessa máls ræddum við aðeins hvernig hæstv. forsætisráðherra hefði tekist að leggja fram breytingartillögu við þjóðaröryggisstefnu sem hún studdi ekki á sínum tíma, án þess að snerta á atriðunum sem trufluðu hennar flokk, Vinstri græn. Í þjóðaröryggisstefnunni eru ellefu tölusettir liðir og það eru þegar gerðar breytingar við þá alla af hálfu forsætisráðherra, fyrir utan töluliði þrjú, fjögur, fimm og sex, sem eru akkúrat liðirnir sem snúa að aðild að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningnum við Bandaríkin, norrænu samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála og viðhaldi varnarmannvirkja á Íslandi. Mér fannst þetta svolítið sniðugt. Þetta var góð leið fyrir ráðherrann að ná utan um mál þar sem hún var með prinsippafstöðu gegn ákveðnum þáttum, eða flokkurinn hennar var alla vega með mjög afgerandi skýra stefnu varðandi ákveðna þætti og gat þess vegna í raun ekki af heilindum lagt fram breytingar á þeim töluliðum. Því lét hún þá einfaldlega standa og lagði fram breytingartillögu á öllu hinu. Nema hvað, hér vandast málið dálítið því meiri hluti utanríkismálanefndar gerir breytingartillögu sem dregur þessa töluliði aftur inn í tillöguna og það vakti furðu mína að heyra framsögumann nefndarálits, þingmann Vinstri grænna, tala fyrir því að rétt væri að skerpa á því að þjóðaröryggisstefnan taki til varna landsins, það er þá með a-lið breytingartillögu nefndarinnar, vegna þess að sú breyting kallist á við 3.–6. tölulið. Heitu kartöflurnar sem forsætisráðherra vildi ekki fyrir sitt litla líf snerta eru allt í einu orðnar að hjartanu í áliti utanríkismálanefndar.

Svo snýst þetta í enn fleiri hringi með því að nefndin leggur áherslu á grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins í þessu sambandi. Ég verð að segja, frú forseti, að það kom mér verulega á óvart að fulltrúi Vinstri grænna væri hér að lyfta upp þessari stefnu sem var samþykkt á leiðtogafundi á síðasta ári. En það ætti kannski ekki að koma á óvart því að formaður Vinstri grænna samþykkti náttúrulega þessa stefnu sem leiðtogi Íslands á fundinum, vegna þess að sú stefna er bara allt sem NATO gerir. Það er eitt atriði sem mig langar að nefna sérstaklega vegna þess að það er atriði sem er kannski einfaldast að setja í þann búning að það sé hálfgalið, en það er fælingarstefna bandalagsins með kjarnavopnum. Með því að segja að utanríkismálanefnd leggi áherslu á grunnstefnu NATO þá er verið að segja að hún leggi áherslu á allt í þessari stefnu, þar á meðal þá hugmynd bandalagsins að varnar- og fælingarstefna þess sé byggð á því sem þeir kalla viðeigandi blöndu, „appropriate mix“, með leyfi forseta, af kjarnavopnum, hefðbundnum vopnum og eldflaugavörnum, ásamt síðan geim- og netöryggisgetu.

Þetta er bundið órofa böndum. NATO er kjarnorkubandalag. Kjarnaflaugar bandalagsins eru það sem þeir kalla endanleg trygging öryggis aðildarríkjanna, með leyfi forseta, „supreme guarantee of the security of the alliance“. Þurfti endilega að undirstrika þetta? Þurftu fulltrúar Vinstri grænna í utanríkismálanefnd endilega að undirstrika að þau standi með þessari stefnu, en mæta síðan hingað og halda ræður um að þau vilji útrýma kjarnavopnum?

Mér finnst þetta dálítið skrýtið og kjarnavopn eru komin á dagskrá stjórnmálanna á allt annan hátt en þau hafa verið á undanförnum árum. Við sáum það ágætlega þegar fyrstu skref Rússa í átt að stríði gegn Úkraínu fólust í mjög óábyrgri orðræðu um mögulega beitingu kjarnavopna. Hún hefur haldið áfram allt Úkraínustríðið, nú síðast í þarsíðustu viku hélt Pútín ræðu þar sem hann undirstrikaði enn og aftur að hann gæti alveg hugsað sér að beita þessum tólum sem hann ætti, svona aðeins til að hnykla vöðvana. Vandinn er náttúrlega að allar hótanir um að beita kjarnavopnum eru gjörsamlega óásættanlegar en það kerfi sem heimurinn hefur komið sér upp til að vinna bug á þessum vopnum er ekki að ná árangri. Það hefur ekki náðst nægjanlegur árangur með því að stóla bara á samninginn um að hefta útbreiðslu kjarnavopna, NPT-samninginn, sem NATO-ríkin og Ísland þar á meðal leggja höfuðáherslu á, samning sem er orðinn 50 eða 60 ára gamall. Það sýnir ágætlega hversu bitlaus hann er í raun orðinn að á síðustu árum hafa Rússar verið að endurnýja kjarnaflaugar sínar alveg hægri vinstri og Kína, sem er aðili að samningnum, er á fullu að fjölga flaugum hjá sér. Það stefnir í það í Íran, sem er aðili að NPT-samningnum, að þar fari fólk að hefjast handa við að reyna að koma sér upp kjarnavopnum. Þess vegna þarf að ganga lengra. Það þarf meira til að ná því sem stendur reyndar í stefnu NATO, að það sé markmið bandalagsins að stefna að heimi án kjarnavopna. Í orði segir bandalagið að það vilji helst lifa í heimi þar sem enginn á kjarnavopn en þangað til ætli bandalagið að eiga þau, en síðan er ekki nóg gert til að losa heiminn við kjarnavopn. Þess vegna vantar t.d. að styðja við vinnu þeirra sem eru að þróa samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum sem tók gildi fyrir rúmu ári. Íslensk stjórnvöld hafa þverskallast við og neita jafnvel að mæta á aðalfundi sem áheyrnarfulltrúar til að láta gott af sér leiða.

Það sem mætti líka gera er það sem ég legg til í breytingartillögu minni við þá stefnu sem við ræðum hér í dag, að tala aðeins skýrar. Það hefur alltaf truflað mig hvað 10. liður þjóðaröryggisstefnunnar er loðinn og, fyrirgefðu forseti, asnalegur. Hann hljómar svona, með leyfi forseta:

„Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“

Hvað varðar þessa innskotssetningu, „að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga“, þá segir þetta sig nú yfirleitt sjálft. Við setjum lög að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og erum ekki að taka það fram í öllum lagagreinum. En þetta bendir til þess að það séu einhverjar alþjóðlegar skuldbindingar sem standa í vegi fyrir þessu markmiði. Hér í andsvörum við hæstv. forsætisráðherra í fyrri umræðu þá gat hún nefnt að hafréttarsáttmálinn stæði mögulega í vegi fyrir því að landhelgin yrði friðlýst, af því að þar eru t.d. ákvæði sem meina ríkjum að koma í veg fyrir för skipa í neyð. Við mættum ekki stoppa skip sem þyrfti að leita skjóls vegna hryllilegs óveðurs bara vegna þess að það bæri kjarnavopn, hafréttarsáttmálinn leyfir það ekki.

Mig langar að láta á þessa breytingartillögu reyna vegna þess að hæstv. ráðherra var dálítið afgerandi þegar hún sagði í fyrri umræðu að hún vildi ítreka að ekki stæði til að setja kjarnavopn á íslenska grundu frekar en nokkru sinni fyrr. Breytingartillagan snýst einmitt um að segja það bara. Ég er með þrjár útgáfur svo þingheimur geti valið þá sem honum líst best á. Miðútgáfan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Að Ísland sé skilgreint sem kjarnavopnalaust svæði í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“

(Forseti hringir.) Ef fólk getur ekki samþykkt þetta vegna einhverra alþjóðlegra skuldbindinga sem koma í veg fyrir að við segjum að ekki megi koma upp kjarnavopnum á íslenskri grundu (Forseti hringir.) þá held ég að við þurfum að eiga annað samtal því að ég man ekki eftir að þjóðin hafi verið svipt þeim sjálfsákvörðunarrétti að vera hér án kjarnavopna.