Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[13:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á þessum tímum stríðs í Úkraínu og ofbeldis Rússa þar í landi er mikilvægt að rödd Íslands um frelsi, frið, lýðræði og mannréttindi sé ákveðin og skýr. Það hefur hún verið, m.a. undir forystu hæstv. utanríkisráðherra. Þegar við síðan endurskoðum þessa þjóðaröryggisstefnu frá árinu 2016 þá er mikilvægt að við tökum tillit til gjörbreyttra aðstæðna í heimsmálum og þeirrar ógnar sem nú herjar á Evrópu og vestræn lýðræðisríki, ein mesta ógn síðari tíma. Almannavarnahluti þjóðaröryggisstefnunnar hefur verið uppfærður og það er vel. Hins vegar er varnarhlutinn skilinn eftir og eru mikil vonbrigði að svo skuli vera. Það er umhugsunarefni að samsetning ríkisstjórnarinnar komi í veg fyrir að við uppfærum varnarhluta þjóðaröryggisstefnunnar. Við vitum að það er í raun meiri hluti í þinginu fyrir því að móta hér varnarstefnu og fela utanríkisráðherra að gera það, en samsetning ríkisstjórnar kemur í veg fyrir að við náum að samþykkja slíka stefnu. (Forseti hringir.) Mér finnst það miður og það er saga til næsta bæjar að það gerist m.a. í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að.