Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[13:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Því ber að fagna að við séum að uppfæra þjóðaröryggisstefnuna. Við lifum í breyttum heimi þar sem þess er krafist að við breytum og séum tilbúin að breyta þjóðaröryggisstefnu okkar miðað við þær breytingar sem eru að verða allt í kringum okkur. Þá er það ekki bara varðandi eitthvert stríð heldur líka þurfum við að horfa á, eins og ég nefndi í ræðu minni í gær, netöryggismál. Það er nú hægt að ráðast á landið án þess að koma hingað nokkurn tímann. Loftslagsmálin sem eiga eftir að gjörbreyta því lífríki sem er í kringum landið og t.d. því hvernig við upplifum loftslagsflótta, allt eru þetta atriði sem þurfa að vera þarna inni. En það er ekki nóg að hafa góða stefnu, hún muna ekki passa upp á landið ein og sér sem eitthvert plagg, heldur þurfum við að fylgja þessu eftir með alvöruaðgerðum og fjármagni, hæstv. fjármálaráðherra.