Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil biðja hæstv. forseta um að bregðast við þessari beiðni minni sem ég legg hér fram á grundvelli 2. mgr. 57. gr. þingskapalaga. Fyrirspurnin lýtur að greinargerð sem er andlag sérstaks stjórnsýslumáls hér á Alþingi vegna upplýsingabeiðna sem hafa borist og ákvarðana sem hafa verið teknar í framhaldinu. Við skulum líka hafa það alveg á hreinu að þetta er ekki eitthvert vinnuskjal Ríkisendurskoðunar heldur skjal sem barst Alþingi og það er á forræði Alþingis að ákveða hvort það skuli birt eða ekki. Hæstv. forseti getur auðvitað ákveðið að synja mér um leyfi til að bera fram þessa fyrirspurn og fært þá fram sín rök fyrir því. En það kemur mjög skýrt fram að undir þeim kringumstæðum þá á þingmaður rétt til þess, samkvæmt téðu ákvæði þingskapalaga, að fá fram atkvæðagreiðslu um það hvort fyrirspurnin skuli leyfð. (Forseti hringir.) Hvert er vandamálið hérna? Greiðum atkvæði um það hvort fyrirspurn um efni greinargerðar setts ríkisendurskoðanda skuli leyfð eða ekki. Greiðum atkvæði um það hvort Alþingi og almenningur fái að vita hvað stendur þarna eða ekki.