Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Já, það er ár síðan forsætisnefnd öll tók ákvörðun um að birta umrædda greinargerð setts ríkisendurskoðanda og ár síðan forseti einn tók ákvörðun um að birta ekki umrædda greinargerð. Það eru þrjú ár síðan þáverandi forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, tók þá ákvörðun að synja um afhendingu á umræddri greinargerð til fjölmiðla. Já, það er rétt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fer með eftirlitshlutverk hér, en það gera auðvitað allir þingmenn líka. En það hefur líka komið fram að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telur sig ekki geta lokið umfjöllun um málefni Lindarhvols einmitt vegna þess leyndarhjúps sem er yfir umræddri greinargerð. Það hefur komið fram hér í einhverri umræðu. Maður veltir fyrir sér hvort það sé Alþingi Íslendinga til framdráttar að haga málum svona þegar settur ríkisendurskoðandi (Forseti hringir.) hefur sjálfur opnað sig um innihaldið þótt hann vilji ekki dreifa greinargerðinni sjálfur.