Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Sem betur fer getum bara tekið tvær spurningar hver hérna. En mig langaði að spyrja hæstv. forseta í framhaldi af því sem hv. þm. Guðbrandur Einarsson nefndi hér áðan, að við lærum flest í gegnum tíðina að við þurfum að fara eftir lögum. Mín spurning til hæstv. forseta er hvort að forseti telji sér heimilt samkvæmt lögum að birta þessi gögn, ekki hvort honum sé það skylt heldur hvort honum sé það heimilt. Það er jú einu sinni þannig að það er hægt að taka ákvarðanir um að birta gögn sem annars væru kannski ekki birt. Gott dæmi um það er í því máli sem kemur seinna til umræðu í dag, hvort birta hefði átt kaupendalistann á Íslandsbanka t.d. Þar töldu ráðherrar sér heimilt að birta hann þótt þeim væri kannski ekki skylt að birta hann.