Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:45]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti verður í tilefni af þessum ummælum að geta þess að þegar forseta Alþingis þáverandi barst greinargerð setts ríkisendurskoðanda sumarið 2018 var það ekki vegna þess að þar væri um að ræða erindi til þingsins. Settur ríkisendurskoðandi var formlega að óska eftir lausn frá störfum sem settur ríkisendurskoðandi vegna þess að þær vanhæfisástæður sem vörðuðu kjörinn ríkisendurskoðanda voru ekki lengur fyrir hendi. Hann sendi hins vegar til upplýsingar með því bréfi þar sem hann óskaði eftir því að verða leystur frá störfum þessa greinargerð sem var lýsing á stöðu verkefnisins eins og hún horfði við honum á þeim tíma. Það plagg hins vegar var fyrst og fremst sent eftirmanni hans hjá Ríkisendurskoðun til að vera grunnur að frekari vinnu sem síðan fór fram á næstu tveimur árum um það efni. Þetta er alveg ótvírætt í þessu efni. Það var ekki um að ræða að þáverandi settur ríkisendurskoðandi sendi Alþingi þessa greinargerð til einhverrar meðferðar heldur til upplýsingar um stöðu málsins á þeim tíma vegna rannsóknar sem þá var í miðjum klíðum.