Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í öllum þessum löngu og flóknu útskýringum er einföldum staðreyndum málsins snúið á hvolf. Meginreglan er að öll svona gögn sem eiga erindi við almenning á að birta. Punktur. Það þarf að rökstyðja sérstaklega ef ekki á að birta. Það hvernig fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi var stemmdur þann daginn þegar hann sendi bréfið eða hvort hann skrifaði í Times New Roman eða hvort hann prentaði á hvítt blað eða blátt skiptir bara ekki máli. Hann sendi það til forseta þingsins. Hann hefur sjálfur lýst því yfir opinberlega, setið í mörgum viðtölum þar sem hann grátbiður um að þessi gögn fái að birtast þingheimi. Öll forsætisnefnd vildi birta þessi gögn. Bréfritari vill birta þessi gögn. Það liggur fyrir eftir því sem mér skilst lögfræðiálit um að rétt sé að birta þessi gögn. Þetta eru engin geimvísindi, það á bara að birta þetta. Forseti tók við þessu bréfi og er bara sem póstberi haldinn einhverjum óskiljanlegum verkkvíða.