Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:52]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þegar hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur nú síðast lá fyrir sérstakt lögfræðiálit sem Bankasýslan hafði aflað sér um að ekki væri rétt að birta lista yfir kaupendur. Hæstv. fjármálaráðherra tók þá sjálfstæða ákvörðun, ákvað að standa með almannahagsmunum og birta öll gögn málsins þvert á lögfræðiálitið. Hann var meðvitaður um hagsmunina að baki, hafði sjálfstraust og styrk í það að taka rétta ákvörðun en ekki vera í einhverjum flækjufæti með það hvernig settum ríkisendurskoðanda leið eða hvað honum gekk til þegar hann tók sig til og sendi ákveðin gögn til forseta Alþingis. Forseti getur birt þetta, getur tekið um það sjálfstæða ákvörðun. Ég hefði áhuga á að vita um þetta lögfræðiálit sem mér skilst að liggi fyrir í málinu. Er það rétt að það liggi fyrir lögfræðiálit í þessu máli og hver er niðurstaða þess?