Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég skildi orð forseta áðan þannig að það væri ótvírætt að þáverandi settur ríkisendurskoðandi hefði sent greinargerðina til upplýsingar. Með öðrum orðum: Það hvíldi engin lagaskylda á honum að gera það. Þetta var til upplýsingar. Það hefur áhrif á meinta trúnaðarskyldu.

Síðan hefði ég líka hug á að spyrja forseta, sem gerst á að þekkja málið af okkur hér: Á hvaða tímapunkti er þessi trúnaðarskylda sett á skjalið? Er það sá sem skrifar það eða er það ríkisendurskoðandi sem tók við skjalinu sem merkti það sem trúnaðarskjal? Það skiptir líka máli vegna þess að þegar upp er staðið þá hlýtur það að vera lykilatriði okkar sem hér erum að hópast ekki í vörn fyrir leyndina heldur sækja á fyrir gagnsæið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)