Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Mér finnst þetta alltaf dálítið skrýtin umræða vegna þess að hún er látin hljóma eins og við séum að deila um eitthvað sem eigi að gerast í framtíðinni þegar ágreiningurinn snýst í rauninni um ákvörðun sem hefur verið tekin. Öll möguleg álitaefni um það hvort eigi að birta greinargerð setts ríkisendurskoðanda voru úr sögunni 4. apríl 2022 þegar forseti lagði til við forsætisnefnd að veittur yrði aðgangur að greinargerðinni án takmarkana og tillaga forseta var samþykkt. Jafnframt lagði forseti þá til að stjórn Lindarhvols yrði upplýst um að forsætisnefnd hygðist afhenda Viðskiptablaðinu greinargerðina og að ríkisendurskoðandi yrði upplýstur um niðurstöðu málsins. Það var ákveðið að birta og það var ákveðið að upplýsa hlutaðeigandi. Það er búið að afgreiða þetta mál nema birtingin strandar enn á stjórnsýslu þingsins. (Forseti hringir.) Já, og vel að merkja, á þessum góða fundi 4. apríl þá lagði forseti til að stjórn Lindarhvols yrði einnig send álitsgerð Magna lögmanna sem núna er einhvern veginn komin undir leyndarhjúp og engum má sýna, ekki einu sinni þingmönnum. Þessi álitsgerð mátti fara til fólks úti í bæ (Forseti hringir.) en núna mega þingmenn ekki sjá hana. Hvaða rugl er þetta?