Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í lögum um Menntasjóð námsmanna sem samþykkt voru árið 2020 er tilgreint að lögin skuli endurskoðuð innan þriggja ára og nú er að líða að þeim endurskoðunartíma. Ég vil nefna nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að taka til skoðunar og breyta. Það eru atriði sem snúa hvað helst að ábyrgðarmönnum en ábyrgðarmannakerfið var að megninu til lagt niður með lögum um Menntasjóð námsmanna. Það þarf að viðurkenna ójafnræði gagnvart þeim ábyrgðarmönnum sem stóðu eftir við gildistöku laganna um menntasjóðinn. Það þarf að breyta ákvæðum í lögum um Menntasjóð námsmanna sem undanskilja námslán á tveggja ára fyrningarfresti í kjölfar gjaldþrotaskipta. Það þarf að fara yfir heimildir sjóðsins til að afskrifa kröfur í kjölfar gjaldþrotaskipta og þegar innheimtuaðgerðir hafa reynst árangurslausar og það þarf að endurskoða hvernig staðið er að innheimtu námslána og hvort hún eigi að vera í höndum einkaaðila sem hafa hag af innheimtunni eins og nú er í formi innheimtukostnaðar.

Herra forseti. Menntasjóður og lán til námsmanna eru meðal öflugustu kerfanna sem við höfum til að auka félagslegan hreyfanleika í samfélaginu og jafna kjör. Það eru ekki hvað síst ábyrgðarmenn vegna námslánaskulda sem nú um stundir leita til umboðsmanns skuldara og eru í vonlausri stöðu vegna mála þar. Þess vegna er mikilvægt réttlætismál að þessi atriði verði tekin til endurskoðunar nú þegar kominn er tími til að fara yfir þessi lög.