Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Morgunblaðið greindi í gær frá niðurstöðum rannsóknarverkefnis VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs um kulnun í starfi. Niðurstöðurnar benda til þess að talsvert fleiri telja sig þjást af kulnun en uppfylla skilyrði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO þar um. Þannig taldi yfir helmingur umsækjanda hjá VIRK að þeir glímdu við kulnun og kulnun kom fram í rúmlega 14% tilvísana til VIRK á síðasta ári. Rannsóknin leiddi hins vegar í ljós að aðeins um 6% beiðnanna til VIRK uppfylltu skilyrði WHO um kulnun. Því er velt upp að þessi svörun skjólstæðinga VIRK gæti endurspeglað gríðarlega mikla umræðu í samfélaginu um kulnun. Sú tilgáta rímar við nýlega umræðu sem fór hátt varðandi rangar greiningar kvenna á breytingaskeiði. Það er mikilvægt að komast að rót vandans þegar heilsufarsvandamál eru greind en misbrestur þar á getur augljóslega leitt til enn stærri vanda og væntanlega mikils kostnaðar ef um stóran hóp er að ræða. Þegar kemur að heilbrigðiskerfinu en líka til að mynda starfsendurhæfingu er mikilvægt að einstaklingar fái viðeigandi þjónustu á réttum tíma og sé þá hreinlega beint í annan farveg ef svo ber undir.

Virðulegur forseti. Ég tel einsýnt að við þurfum að öðlast betri skilning á þessum vanda, m.a. með því að afla og halda vel utan um upplýsingar. Við höfum því miður rekið okkur á brotalamir á slíku í heilbrigðiskerfinu svo vonandi er hæstv. heilbrigðisráðherra með á nótunum í þessum efnum. Annars er reyndar ekki ólíklegt að ég pikki í hann. Þegar ég hugsa um það þá er allt of langt síðan gerði það síðast.