Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það dúkka reglulega upp í samfélagsumræðunni hugmyndir sem virka einfaldar og sakleysislegar en eru svo flóknari og skaðlegri þegar betur er að gáð. Þegar slíkar hugmyndir koma á færibandi frá ráðherra í ríkisstjórn er nú full ástæða til að staldra aðeins við.

Undanfarið hafa landsmenn fylgst gáttaðir með dómsmálaráðherra þjóðarinnar kynna illa ígrundaðar hugmyndir sem eru af þessum toga, keyrðar áfram af miklu kappi en lítilli forsjá. Það er skemmst að minnast tilkynningar hans um rafvopnavæðingu lögreglunnar, án sannfærandi undirbúnings og án þess að kynna hana á fullnægjandi hátt í ríkisstjórn, hvað þá að leita til löggjafans eftir viðhorfi. Þá olli það eðlilega fjaðrafoki þegar hann setti flugvél Landhelgisgæslunnar á sölu, gríðarlega mikilvægt öryggistæki þjóðarinnar. Áformin komu öllum á óvart, ekki síst ráðherrum ríkisstjórnarinnar, og var hann sem betur fer gerður afturreka með þetta.

Nú birtist dómsmálaráðherra eina ferðina enn með furðulega hugdettu sem gengur þvert gegn mörgum grundvallarviðmiðum í siðuðum samfélögum. Ráðherra hefur áhuga á að gera tilraunir á föngum. Nú eru fangar mjög fjölbreyttur hópur og erfitt að sjá af hverju hann taldi einmitt þennan viðkvæma hóp sérstaklega ákjósanlegan til slíkra tilrauna, fyrir utan að þetta afhjúpar ekkert sérstaklega geðslega manneskjusýn sem er vonandi fjarri flestum. Þetta á í rauninni miklu meira skylt við dökka vísindaskáldsögu. Stjórnarliðar og ráðherrar í ríkisstjórninni hafa verið á harðahlaupum frá áformum þessa ráðherra og tilvísun í að fjölskipað stjórnvald sé ekki hér til staðar er mikið notað, en ætti kannski frekar að vekja okkur til umhugsunar um það hvort sé ekki skynsamlegt að breyta því. Ég velti því stundum fyrir mér hvort það sé ekki komið að þolmörkum Vinstri grænna og Framsóknar gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra og jafnvel aðstoðarmanni hans líka.