Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hafði svo mörg ráð til að takast á við verðbólgudrauginn að hún stóð bara ráðalaus og gerði ekki neitt. Persónuafslátturinn ætti að vera 90.000 kr. á mánuði og því ættu um 400.000 kr. laun að vera skatta- og skerðingarlaus. Hvers vegna eru menn með tugmilljónir í laun á mánuði að fá persónuafslátt upp á 60.000 kr.? Hættum fjárhagslegu ofbeldi gagnvart verst setta fólkinu og tökum persónuafsláttinn af þeim sem eru á milljónalaunum og hækkum hann strax hjá þeim verst settu þannig að þeir hafi 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust.

Fátæka fólkið okkar er að leigja hreysi sem eru ekki boðleg skepnum, hvað þá fólki með börn. Leigan hækkar og hækkar og fólk á ekki fyrir henni, hvað þá fyrir mat og öðrum nauðsynjum fyrir börnin. Mér leið eins og í Harry Potter mynd um daginn af því að það mátti ekki nefna eitt nafn. En nú er vonandi — bíb — stýrivaxtahækkunarstjórinn við Arnarhól undir feldi og verður þar og hættir þessu fáránlega eina ráði sem hann segist hafa og það er — bíb — hækkun á stýrivöxtum. Á sama tíma virðist SA vera að horfa á gamla Spaugstofuþætti og hagar sér eins og Ragnar Reykás og segir: Ein krafa, einn samningur, ein niðurstaða. Ekkert annað kemur til greina.

En ríkisstjórnin, hvar er hún? Hún er að rumska af værum svefni. Eftir áreiðanlegum heimildum er hún að vopnast og undirbúa aðgerðir gegn verðbólgunni. Hún ætlar að senda í heimabanka fólks eina til þrjár milljónir, aukastuðning til þess að standa með unga fólkinu sem hún er búin að senda þennan reikning á, bara fyrir það eitt að kaupa sér íbúð. En því miður, það virkar ekki. Það eina sem virkar er að hækka persónuafsláttinn sem skilar þeim verst settu mannsæmandi launum sem duga fyrir húsnæði, mat og öðrum nauðsynjum og það ætti að vera sjálfsagt.