Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Á tímum tveggja stafa verðbólgu eru öguð vinnubrögð í fjárlagagerð mjög mikilvæg. Við höfum nýlega, eða tiltölulega nýlega, 2015, lögin tóku gildi 2016, sett ný lög um opinber fjármál sem verður að segjast að hafa ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Svo einfalt er það. Lögin sjálf eru mjög góð en framkvæmd þeirra hefur verið vægast sagt slæm. Fjárlaganefnd hefur ítrekað klórað sér í hausnum og velt fyrir sér hvað sé eiginlega að gerast: Af hverju eru lögin eins og þau voru sett ekki að virka? Ég hef bent á það í hinum ýmsu fjármálaáætlunar- og fjárlagaumræðum að það sé einfaldlega framkvæmdarvaldið sem sé ekki að sinna sínu. Og svona í anda þess fór fjárlaganefnd og heimsótti OECD og franska þingið. Við hittum franska fjármálaráðherrann líka og vorum að leita liðsinnis þeirra við að sjá hvernig þróun opinberra fjármála hefur þróast þar, enda eru lögin þar byggð á svipuðum grunni. Þar komu fram ýmsar mjög áhugaverðar athugasemdir sem ég vonast til þess að við náum að innleiða hérna í íslenska þingið til að láta lög um opinber fjármál virka með skilmerkilegum hætti.

Nú heyrði ég einhverjar gagnrýnisraddir um að fjárlaganefnd væri að fara í útlandaferð, hvort það væri ekki hægt að vera bara á veffundi o.s.frv. En mannleg samskipti skipta máli. Það skiptir máli að sjá og heyra í fólki og það eru ekki bara fundirnir sem skipta máli heldur spjallið sem gerist inn á milli funda og eftir fundina o.s.frv. til að fá dýptina í samræðurnar, stundum. Hvort tveggja á við hérna, því að við erum með fullt af upplýsingum sem við fáum en við þurfum stundum dýptina og það þarf að hitta fólk. Ekki væri t.d. heilbrigðiskerfið upp á marga fiska ef það væri bara fjarheilbrigðiskerfi. Það sama á við um fjármálin sem eru þar undir og fjármögnun heilbrigðiskerfisins, enda hefur komið fram að þar þarf að gera mikla gangskör. Það var einmitt kynning hjá OECD um framtíð þess að fjármagna heilbrigðiskerfi og það mun verða stærsta áskorun okkar á næstunni.