Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Verðbólgan er farin úr böndunum eins og menn þekkja og orðin sú mesta frá því árið 2009, og ekki var staðan góð í september það ár. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í fjölmiðlum í dag að við þyrftum sameiginlegt átak gegn verðbólgu. En ætlar ríkisstjórnin að taka þátt í því átaki? Það væri nýlunda. Minnast menn umræðunnar hér í tengslum við fjárlög, þegar þingmenn Miðflokksins ekki síst vöruðu við því að ríkisstjórnin riði á vaðið og gæfi tóninn með hækkunum gjalda við áramót? Við bentum á hið augljósa, að þetta myndi leiða til verðhækkana um allt samfélagið og það auðvitað kom á daginn. Um leið og ríkisstjórnin hafði gefið tóninn með verðhækkanir á nýju ári þá fylgdu aðrir á eftir og vísuðu ekki síst í hækkandi gjöld. En ríkisstjórnin hefur líka slegið öll met í ríkisútgjöldum; mestu útgjöld allra tíma, mesta aukningin milli ára, hvort sem er í krónum talið eða hlutfallslega, og mesta svartsýnin á framtíðina. Ríkisstjórnin gerir sér engar vonir um að geta náð tökum á ríkisfjármálunum í sinni tíð og ætlar næstu ríkisstjórn að gera það um mitt sitt kjörtímabil.

Allt er þetta til þess fallið að ýta mjög verulega undir verðbólgu. Við höfum fyrir alllöngu síðan nefnt ýmsar tillögur að því hvernig mætti taka á þessum vanda og slá á hann, t.d. með lækkun gjalda, til að mynda þó ekki væri nema tímabundin lækkun refsiskatta eins og eldsneytisgjalda, sem hafa strax mjög víðtæk áhrif. Skattlagning orku hefur strax áhrif um allt samfélagið. Lækka, þó ekki væri nema tímabundið, lægra þrep virðisaukaskatts þar sem matvæli og aðrar nauðsynjavörur eru undir og knýja á um að sveitarfélögin skili inn lóðum til uppbyggingar og einfalda það ferli. Þar þurfa stjórnvöld að koma inn, og svo koma inn aðrir þættir eins og það að málefni hælisleitenda séu stjórnlaus, eins og svo margir aðrir málaflokkar, (Forseti hringir.) sem þýðir að mjög fáir eru viljugir til að leigja húsnæði heimamönnum hér vegna þess að ríkið borgar á réttum tíma og er með alla anga úti við að leita að húsnæði.