Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Úr því að ég komst að hér í störfunum þá langar mig til að fjalla aðeins um og vekja athygli á tveimur greinum sem birtust í Fréttablaðinu í dag. Ég held að þær hljóti að hafa vakið athygli fleiri en mín en væntanlega hefur það líka valdið okkur áhyggjum að lesa þessar greinar. Í fyrri greininn er talað um greiningu sem hagfræðideild Oxford-háskóla birti og varar við því að hugsanlega gæti skollið á húsnæðis- og bankakreppa á Íslandi. Þegar maður fer aðeins yfir þetta er ástæðan fyrir því sú að á Covid-tíma hafi vextir verði lækkaðir meira en góðu hófi gegndi og það muni hafa þau áhrif í framhaldinu að vextir muni halda áfram að hækka og húsnæðisverð lækka. Þetta er sá raunveruleiki sem þeir sem keyptu sína fyrstu íbúð standa andspænis.

Það er önnur grein í Fréttablaðinu þar sem varað er við því að kaupendur fyrstu fasteignar gætu tapað útborguninni sinni. Þá spyr maður: Hvað er verið að gera? Það er verið að plata fólk, ungt fólk, á tímum þegar vextir eru lágir til að fara að fjárfesta. Og hvað gerist? Eigið fé þeirra hverfur. Þekkjum við þessa sögu? Það er ekki eins og við séum að sjá þetta í fyrsta skipti. Ég upplifði þetta sjálfur þegar verðbólgan fór í 100%. Við erum að endurtaka þetta sýknt og heilagt. (Forseti hringir.) Og hvað erum við að gera? Það er ekki verið að gera neitt annað en að stela peningum af ungu fólki.