Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[15:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. forseti hafi samþykkt að láta fara fram atkvæðagreiðslu um hvort fyrirspurnin mín um Lindarhvolsgreinargerðina yrði leyfð en ég finn mig knúinn til að koma aftur upp vegna atriða sem komu fram í máli hæstv. forseta hér áðan. Hann sagði nefnilega að kjarni ágreiningsmálsins um birtingu greinargerðarinnar lyti að því hvort skjalið teldist til vinnuskjals skv. 15. gr. laga um Ríkisendurskoðun eða hvort svo væri ekki. Ég vil í þessu samhengi benda á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem er sá aðili sem hefur verið falið að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum, hefur nú þegar tekið afstöðu til einmitt þessa álitamáls, hvort hér sé um að ræða atriði sem falla undir þessa grein. Samkvæmt úrskurði sem nefndin kvað upp 27. september 2019 eru drög frá Ríkisendurskoðun sem borin eru undir stjórnvöld undirorpin þessari sérstöku þagnarskyldu laganna um Ríkisendurskoðun, (Forseti hringir.) en, og nú vitna ég beint í úrskurðarnefndina:

„Þegar lokaeintak greinargerðarinnar hefur verið afhent Alþingi á framangreind regla laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga ekki lengur við um takmörkun á aðgengi að greinargerðinni.“

Svo mörg voru þau orð frá þeirri úrskurðarnefnd sem falið hefur verið að leysa úr þessum málum. (Forseti hringir.) En forseti Alþingis telur sig vita betur.