Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi.

381. mál
[21:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti í 381. máli um fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi, búsetuskilyrði stjórnenda.

Ég ætla aðeins að fara yfir helstu atriði en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki og laga um vátryggingastarfsemi sem fjalla um búsetu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Nánar tiltekið er lagt til að búsetuskilyrði laganna taki ekki til ríkisborgara aðildarríkja EES-samningsins, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja.

Rétt til að fara aðeins yfir það samráð sem nefndin viðhafði hefur allnokkurt samráð verið viðhaft undanfarin ár við menningar- og viðskiptaráðuneytið, áður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þá hefur ESA verið upplýst reglulega um áformaðar lagabreytingar. Áform um lagasetningu voru send öðrum ráðuneytum til umsagnar í júní 2022 og barst engin efnisleg umsögn. Áformin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is á tímabilinu 4. júlí til 15. ágúst 2022, sbr. mál nr. S-113/2022. Ein umsögn barst um áformin frá Arion banka. Í umsögninni er gerð athugasemd við að áform um lagasetningu geri ekki ráð fyrir sams konar undanþágu frá búsetuskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í lífeyrissjóðum. Telur bankinn að slík breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sé bæði sanngjörn og eðlileg án þess að það sé rökstutt nánar. Löggjöf á fjármálamarkaði byggist að mestu leyti á Evrópureglum sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn en það á þó ekki við um íslenska lífeyriskerfið sem byggist að mestu á íslensku regluverki. Athugasemdir ESA lúta einungis að búsetuskilyrðum í lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um fjármálafyrirtæki. Nánar er greint frá samráði í því nefndaráliti sem liggur frammi.

Rétt til að reifa hér umfjöllun nefndarinnar eru í greinargerð frumvarpsins tildrög þess nokkuð ítarlega rakin. Frumvarpið er lagt fram til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, þess efnis að búsetuskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga í umræddum lögum brjóti gegn 28. og 31. gr. EES-samningsins sem fjalla um frelsi launþega til flutninga og staðfesturétt.

Athugasemdir ESA hafa beinst að því að með því að hafa í gildi búsetuskilyrði fyrir ríkisborgara þriðju ríkja sem fram koma í íslenskum lögum hafi Ísland gerst brotlegt við framangreind ákvæði samningsins. Af greinargerð frumvarpsins verður ráðið að ekki liggi fyrir endanleg niðurstaða ESA og eftir atvikum EFTA-dómstólsins um það hvort sú leið sem farin er í frumvarpinu, að takmarka rýmkun á búsetuskilyrðum við ríkisborgara aðildarríkja, samrýmist 31. gr. EES-samningsins. Í greinargerð eru þó færð fyrir því rök hvers vegna líta beri á þær breytingar sem lagðar eru til sem fullnægjandi.

Í nefndaráliti meiri hlutans er bætt í þann rökstuðning, m.a. með vísan til dóms EFTA-dómstólsins í máli sem ESA höfðaði gegn norska ríkinu, nr. E-9/20, þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að samanlögð krafa um hvort tveggja búsetu og ríkisfang í EES-ríki teljist ólögmæt skerðing á staðfesturéttinum.

Segir þar jafnframt að eingöngu ríkisborgarar aðildarríkja og lögaðilar sem njóta sömu stöðu skv. 34. gr. njóti staðfesturéttar skv. 31. gr. samningsins. Þannig geti skilyrði um ríkisborgararétt innan aðildarríkis EES-samningsins ekki falið í sér takmörkun á þeim rétti. Hins vegar geti regla sem feli í sér skilyrði um búsetu EES-ríkisborgara, í ríki sem er aðili að samningnum, falið í sér takmörkun á réttinum. Miðað við þá niðurstöðu dómsins telur meiri hlutinn þau skilyrði sem lögð eru til í frumvarpinu vera í samræmi við túlkun hans á inntaki 31. gr. EES-samningsins.

Þá var í umsögn Seðlabanka Íslands bent á að ástæða kynni að vera til þess að gera hliðstæðar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sú ábending kom einnig fram þegar frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda og vísar nefndin til nánari umfjöllunar í greinargerð og nefndaráliti um þetta atriði. Slík breyting myndi í öllu falli kalla á nánari athugun og samráð og telur meiri hlutinn því ekki tilefni til að leggja til slíkar breytingar á því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Að öðru leyti vísast til ítarlegri umfjöllunar í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Að því sögðu, virðulegur forseti, og að framangreindu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið samþykkist óbreytt. Undir álitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Logi Einarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.