153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hagstjórn Íslands.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum árum gengið í gegnum mjög djúpa efnahagslægð vegna kórónuveirufaraldursins sem var heimsfaraldur og á þeim tíma sem við vorum að leggja á ráðin um það hvernig við ættum að takast á við þessa hluti þá höfðum við töluvert miklar áhyggjur af því hversu miklum skuldum ríkissjóður myndi safna á næstu árum og hvernig heimilin myndu komast í gegnum þessa tíma. Við sjáum það núna þegar við horfum til baka og berum saman við fjármálaáætlanir sem samþykktar hafa verið hér í þinginu, að okkur hefur tekist gríðarlega vel til. Kaupmáttur allra heimila, þ.e. allra tekjutíunda, hefur farið vaxandi ár frá ári undanfarin ár. Staða heimilanna almennt, vegna þess að menn setja hana hér á dagskrá, er sterkari heldur en nokkru sinni fyrr. Skuldastaða heimilanna t.d. í fjármálakerfinu ber vitni um þetta. Eiginfjárstaða heimilanna samkvæmt skattframtölum hefur verið að styrkjast ár frá ári. Þannig að ríkisstjórninni tókst að stýra hagkerfinu í gegnum þessa djúpu efnahagslægð með glæsibrag og því stöndum við ótrúlega sterkt þegar við núna fáum yfir okkur verðbólgukúf.

Það sem við erum að eiga við í dag er ekki kreppa heldur erum við í miðju góðærinu. Við erum í góðæri sem lýsir sér í því að það er of mikil þensla. Það er rétt að það hefur kallað á vaxtahækkanir vegna verðbólgunnar og ég deili áhyggjum af því hversu há verðbólgan mælist. Ég geri það. Menn segja að ríkisfjármálunum hafi ekki verið stýrt nægilega vel. Samt er það nú þannig að skuldir ríkissjóðs eru hundruðum milljarða lægri heldur en við reiknuðum með fyrir nokkrum árum. Tekjur ríkissjóðs stefna í að vera hundruðum milljarða hærri heldur en við reiknuðum með fyrir nokkrum árum síðan. Skuldahlutföll ríkissjóðs eru algerlega til fyrirmyndar, vel verjanleg og miklu lægri heldur en hjá öðrum þjóðum. (Forseti hringir.) Það sem ræður úrslitum núna um það hvernig úr þessari sterku stöðu spilast er hvernig við beitum ríkisfjármálunum og peningastefnunni saman með aðilum vinnumarkaðar (Forseti hringir.) sem bera líka sína ábyrgð — laun hafa hækkað gríðarlega mikið undanfarin ár — til þess að draga úr spennunni í hagkerfinu.