153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hagstjórn Íslands.

[15:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Afneitunin er enn í gangi. Það er ekki annað að heyra hjá hæstv. fjármálaráðherra. Við erum að sjá fram á agaleysi í ríkisfjármálum sem er búið að vara við frá því löngu fyrir faraldur. Þá var samdrátturinn hafinn. En ríkisstjórnin hefur ekkert með þetta að gera. Ríkisfjármálum hefur ekki verið beitt sem skyldi samhliða peningastefnu. Það er bara þannig. Og það er verið að kalla eftir þessu. Látum vera að við í Viðreisn höfum verið að vara við þessu, Samtök atvinnulífsins voru mjög harðorð í gagnrýni á ríkisvaldið fyrir afgreiðslu fjárlaga. Það sama gildir líka um seðlabankastjóra sem hefur verið mjög varfærinn í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina en hann hefur einmitt sagt: Þið eruð að eyða um efni fram og það sama má segja um virta hagfræðinga hvort sem við erum að tala um Gylfa Zoëga eða aðra.

Það sem hryggir mig er að hæstv. ráðherra kemur hingað upp og segir bara: Við erum bara í rosa góðum málum. Hefur smá áhyggjur af verðbólgunni. En hann getur ekki komið hingað upp eftir alla þessa bið eftir ríkisstjórninni og sagt hvert planið er. Hann getur ekki komið hingað upp (Forseti hringir.) og sagt: Við ætlum að fara í þessa og þessa aðgerð, hvort sem það er lækkun tolla eða ýmsar aðrar aðgerðir, til að vinna bug á verðbólgunni.

Enn og aftur ætlar ríkisstjórnin að láta (Forseti hringir.) Seðlabankanum eftir hlutverkið og aðilum vinnumarkaðarins. Það þýðir ekki að koma hingað upp enn og aftur og vera í algerri afneitun yfir þessu öllu saman. (Forseti hringir.) Og vel að merkja, við í Viðreisn höfum ítrekað að við erum til í að (Forseti hringir.) styðja við ríkisstjórnina í öllum þeim aðgerðum sem hún þarf að fara í og við öll til þess að vinna bug á verðbólgunni. (Forseti hringir.) Þannig að ég bið hæstv. ráðherra að koma ekki hingað upp í pontu og skamma okkur.