153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hagstjórn Íslands.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að staða ríkissjóðs í dag borið saman við það sem við vorum að gera ráð fyrir fyrir tveimur árum síðan er allt önnur, miklu sterkari og miklu betri, miklu betri. Staða heimilanna sömuleiðis, nú þegar verðbólgan rís, er einhver sú sterkasta sem höfum séð. Allar tekjutíundir hafa verið að styrkja stöðu sína og þeir tekjulægstu mest. En verðbólgan er mikið áhyggjuefni og þegar sagt er að við þurfum að auka aðhald í ríkisfjármálum þá er ég að segja að ég er sammála því. Við þurfum að gæta að vexti útgjaldanna. Vöxtur útgjaldanna í fyrra var of mikill, m.a. vegna þess að stofnanir voru ekki að halda fjárlög sem ákveðin voru hér á Alþingi. Það er alveg rétt. En ég ætla að vara við því þegar þingmenn koma hingað upp og segja aðhaldið ekki nógu mikið en leggja síðan eingöngu til þensluhvetjandi aðgerðir (ÞGK: Það er ekki rétt.)eins og þær sem ég hef heyrt … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Má ég? Nú ætla ég að fá að hafa orðið. Aðgerðir eins og þær sem ég hef heyrt (Forseti hringir.) um að lækka virðisaukaskattinn hressilega á matvæli, eins og þær sem ég hef heyrt um að fella niður tolla og aðrar tekjur ríkisins, (Forseti hringir.) allar þær aðgerðir sem eru til þess fallnar að draga úr tekjum ríkisins við þessar aðstæður — allir þeir sem gagnrýnt hafa ríkisstjórnina (Forseti hringir.) fyrir að láta gjaldstofna sína fylgja verðlagi eru að biðja um að við förum í örvandi aðgerðir á sama tíma og þeir eru að kalla eftir meira aðhaldi. Þetta er algjör þversögn. (ÞGK: Og ríkisstjórnin skilar auðu.)

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna bæði hv. fyrirspyrjendur og hæstv. ráðherra á að virða tímamörk sem eru mjög knöpp í bæði fyrirspurnum og svörum en ítrekað hefur verið farið yfir þau mörk hér við upphaf þessa fundar.)