153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hækkandi vextir á húsnæðislánum.

[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um afkomubætandi aðgerðir og tillögur stjórnarandstöðunnar undir lok síðasta árs í tengslum við fjárlög þessa árs þá voru þær nú allar hugsaðar til að fjármagna ný útgjöld, stærra ríki. Það var nú það sem þessar afkomubætandi ráðstafanir gengu út á, (Gripið fram í: Rangt.) að fjármagna útgjaldatillögur.

Já, ég deili áhyggjum af þeim hópum sem hv. þingmaður nefnir hérna sérstaklega, fólki með breytilega vexti á óverðtryggðum lánum. Það eru þeir hópar sem hafa þurft að þola langmestu hækkunina á mánaðarlegri greiðslubyrði. Ég ætla að nefna hérna nokkra hluti sem ég held að geti skipt máli í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi verðum við að muna að það er ekkert sem skiptir þessa hópa jafn miklu máli og að ná tökum á verðbólgunni. Þar verða menn einfaldlega að standa saman og leggjast á árarnar til að ná árangri. Ég hef sagt mjög skýrt: Já, ég held að við þurfum að gæta að því að aðhaldið verði aukið í ríkisfjármálunum. Það þýðir ekki niðurskurð, það þýðir bara minni vöxt á útgjaldahliðinni, vegna þess að tekjurnar eru að rjúka upp.

Í öðru lagi vek ég athygli á því að það er viðskiptasamband þessara heimila við fjármálastofnanir og þessar fjármálastofnanir bera líka ábyrgð. Sumar þessara fjármálastofnana eru með fyrirkomulag í þessum lánum sem við getum kallað vaxtaþak þannig að þegar afborganir vegna vaxtanna ná ákveðnu hámarki er hægt að kasta því sem umfram er aftast á lánið. Þetta væri mjög góð lausn og mér finnst að fjármálafyrirtækin almennt eigi að horfa til þess hvernig þau geta létt undir með þeim viðskiptavinum sem vilja halda áfram í óverðtryggðu vaxtaumhverfi. Það skiptir líka máli að þessir kúnnar geti skipt yfir í verðtryggð lán þegar það þykir henta.

Enn sem komið er erum við ekki að sjá veruleg vanskil í fjármálakerfinu en þetta eru dæmi um (Forseti hringir.) aðgerðir sem geta skipt máli. Við hækkuðum líka vaxtabætur í fjárlögum þessa árs, (Forseti hringir.) sem er að sjálfsögðu aðgerð sem skiptir máli, en við verðum að muna að beina sjónum okkar að rót vandans, ekki afleiðingunum.