153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hækkandi vextir á húsnæðislánum.

[15:42]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að mótvægisaðgerðir þurfa að beinast að afleiðingunum vegna þess að það er lífskjarakrísa í gangi. Hún er ekki eins hjá öllum hópum í samfélaginu og sannarlega ekki sú sama eftir því hvar fólk er statt í tekjustiganum. Ég bíð enn eftir því að hæstv. fjármálaráðherra segi okkur eitthvað um það hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Hefur ríkisstjórnin t.d. áhuga á því að beita tæki sem er kallað leigubremsa? Einhverjir ráðherrar í ríkisstjórn hafa viðrað þá hugmynd að það gæti komið til greina. Hefur hæstv. ráðherra áhuga á því að beita slíku tæki? Hann talar um vaxtabætur. Þær hafa mjög oft komið að góðum notum þegar ástandið er með þessum hætti. Svo vil ég bara segja í lokin, af því að hér er mikið talað um þensluhvetjandi aðgerðir og eyðslusemi stjórnarandstöðunnar, að það skiptir mjög miklu máli í hvað þessum ríkisframlögum er varið. Ef við erum að verja fé úr ríkissjóði til að styðja við fjölskyldur (Forseti hringir.) með barnabótum, húsnæðisstuðningi og öðru þá erum við að styðja með sanngjörnum og réttlátum hætti (Forseti hringir.) betri og sanngjarnari tekjuskiptingu í landinu og betra líf.