153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hækkandi vextir á húsnæðislánum.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna eitt samhengi hlutanna hérna, sem er auðvitað grundvallaratriði vegna þess að við höfum verið að ræða það aðeins í fyrirspurnatímanum að það skipti máli að ríkisfjármálin leggist á sveif með aðgerðum Seðlabankans. Í því sambandi hefur Seðlabankinn verið að gera hvað? Hann hefur verið að hækka vexti til að draga úr þenslu. Þá er ákveðin mótsögn í því þegar fólk kallar eftir að við leggjumst á sveif með Seðlabankanum og eyðum áhrifum af vaxtahækkunum með mótvægisaðgerðum til að eyða hinum neikvæðu afleiðingum vaxtahækkana. Því eru auðvitað mjög mikil takmörk sett hversu langt ríkisvaldið getur gengið í því að núlla út áhrif Seðlabankans með vaxtahækkunum, sérstaklega á það við ef við erum með aðgerðir sem ganga breitt yfir markaðinn. (Forseti hringir.) En ég er á engan hátt að andmæla því að þarna er bent á hópa sem við þurfum að huga að og þarf að standa með, og ég tel að ríkisstjórnin hafi á undanförnum árum verið að gera það.