Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

751. mál
[16:09]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja. Frumvarpið byggist tillögum úr rýni á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem hefur gert rúmlega 100 tillögur til breytinga á ýmsum laga- og reglugerðarákvæðum í ferðatengdri þjónustu hér á landi. Í frumvarpinu er kveðið á um tvenns konar breytingar á gildandi lögum. Í fyrsta lagi um afnám skilyrðisins um að ökutækjaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð. Í öðru lagi er lagt til að skerpt verði á orðalagi hvað varðar skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis.

Eins og ég kom inn á byggist frumvarpið á tillögum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, en árið 2019 gerðu íslensk stjórnvöld samning við stofnunina um framkvæmd á sjálfstæðu samkeppnismati á regluverki íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar. Umrætt verkefni, sem unnið var í samvinnu ráðuneyta, Samkeppniseftirlitsins og stofnana, leiddi m.a. í ljós að draga mátti úr óþarfa reglubyrði fyrir atvinnustarfsemi og breyta regluverki svo það styddi betur við virka samkeppni innan íslenskrar ferðaþjónustu. Við vinnslu verkefnisins voru 632 gildandi lög og reglugerðir á sviði ferðaþjónustu og byggingariðnaðar yfirfarin í þeim tilgangi að greina samkeppnishamlandi ákvæði. Við vinnslu verkefnisins voru greindar 676 mögulegar samkeppnishindranir í regluverkinu. Af þeim gerði OECD 438 tillögur til úrbóta. Þá telur OECD að áhrif þeirra 438 tillagna geti aukið landsframleiðslu um u.þ.b. 1%. Í framhaldinu, eða í upphafi árs 2021, var stofnaður vinnuhópur sem skipaður var fulltrúum þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, innviðaráðuneytis sem og Samkeppniseftirlitsins. Þessum hóp var ætlað að vinna drög að fyrstu laga- og reglugerðarbreytingum sem byggðust á fyrrnefndum tillögum OECD varðandi ferðatengda þjónustu og falla m.a. undir málefnasvið menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Sú vinna leiddi til breytinga á ýmsum lögum, sbr. lög nr. 90/2021, þar sem brugðist var við hluta tillagna OECD sem falla nú undir menningar- og viðskiptaráðuneytið. Með umræddum lögum var stigið mikilvægt skref í að efla viðspyrnu hagkerfisins í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, stuðla að einfaldara regluverki, aukinni framleiðni og fjölgun starfa.

Með breytingartillögunni var m.a. afnuminn fjöldi forskriftarákvæða í stöðlum um gististaði. Þá var málsmeðferðartími vegna útgáfu tækifærisleyfa styttur, aldursskilyrði umsækjanda voru rýmkuð, auk þess sem gjöld vegna rekstrarleyfa tiltekinna veitinga- og gististaða voru lækkuð. Þá var afnumið það skilyrði að starfsstöð ökutækjaleigu skyldi vera opin almenningi, ásamt því að ýmsar kröfur um búnað sem hótelum og gistiheimilum var skylt að hafa til staðar voru afnumdar.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er stuðlað að aukinni framleiðni, einfaldara regluverki og fjölgun starfa. Með frumvarpinu hefur menningar- og viðskiptaráðuneyti jafnframt lokið vinnu við útistandandi tillögur skýrslu OECD sem krefjast lagabreytinga á sviði ferðamála og eru á málefnasviði ráðuneytisins. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að samhliða frumvarpinu verður ráðist í reglugerðarbreytingar til að ljúka við þær tillögur OECD sem ekki krefjast lagabreytinga. Umræddum reglugerðarbreytingum er m.a. ætlað að auka skýrleika reglna um þjálfun dyravarða, að auka skilvirkni umsagnarferlis við útgáfu rekstrarleyfa veitinga- og gististaða. Þar að auki verður að frumkvæði mínu gerð breyting á reglugerð um leigu skráningarskyldra ökutækja á þá vegu að opnað verður alfarið á rafræna samningsgerð við leigu skráningarskyldra ökutækja. Auk heldur verða gerðar breytingar á sömu reglugerð sem munu leggja auknar kröfur á ökutækjaleigur um að miðla upplýsingum til leigutaka um þær hættur sem geta skapast á íslenskum vegum í þeim tilgangi að auka öryggi í umferðinni.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni er í frumvarpinu kveðið á um tvenns konar breytingar á gildandi lögum. Í fyrsta lagi er lagt til að skilyrðið um að ökutækjaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð verði afnumið. Af því leiðir að ökutækjaleigur geta valið milli þess hvort þær vilji reka starfsemi sína á fastri starfsstöð eða hafa einungis geymslustað þar sem skráningarskyld ökutæki eru geymd. Af því leiðir að ekki verður lengur þörf á húsnæði eða því að annað rými sé til staðar þar sem ökutækjaleiga rekin, staðbundin og reglulega í atvinnuskyni. Með breyttum viðskiptaháttum er talið rétt að falla frá kröfu um fasta starfsstöð, m.a. í því skyni að liðka enn frekar fyrir rafrænum viðskiptum og fjölbreyttari viðskiptaháttum. Skilyrði um fasta starfsstöð verður að teljast sérstaklega íþyngjandi fyrir smærri ökutækjaleigur. Umrædd breyting er því til þess fallin að auka fjölbreytni og nýsköpun ásamt því að auðvelda nýjum rekstraraðilum að hefja starfsemi með minni tilkostnaði.

Með frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að skerpt verði á orðalagi hvað varðar skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis. Rétt er að geta þess að um orðalagsbreytingu er að ræða sem felur ekki í sér breytingu á gildandi efnisrétti. Með því að bæta orðinu „og“ við í 4. gr. laganna er ætlunin að fyrirbyggja mistúlkun vegna umsókna um starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu.

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni er frumvarp þetta síðasta lagabreytingin í vinnu við að bæta rekstrarskilyrði íslenskrar ferðaþjónustu á því málefnasviði sem fellur undir menningar- og viðskiptaráðuneytið. Frumvarpið hefur verið unnið í góðu samráði við Samkeppniseftirlitið, Samgöngustofu og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá var einnig fundað með fulltrúum frá innviðaráðuneyti og Samtökum ferðaþjónustunnar við gerð frumvarpsins. Frumvarpið hefur almennt í för með sér að dregið er úr óþarfa reglubyrði, aðgangshindrunum og íþyngjandi kvöðum á atvinnurekstur sem ekki er talið að málefnaleg rök standi til að viðhalda í lögum. Skilyrði um fasta starfsstöð er ekki talið þjóna málefnalegum tilgangi, auk heldur sem það felur í sér aðgangshindrun að þeim mörkum sem um ræðir. Með frumvarpinu er þannig komið til móts við nýja og framsækna viðskiptahætti ökutækjaleiga jafnframt því sem liðkað er fyrir rafrænni starfsemi í auknum mæli.

Frumvarpið felur þar af leiðandi í sér breytingar sem eru hvort tveggja til hagsbóta fyrir atvinnulífið og stjórnvöld. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.