Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:50]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Þótt ég hafi kannski í einhverjum hálfkæringi kallað það hrós, menn sem hann taldi hér upp, þá vonandi skildist að það var í hálfkæringi. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart og allra síst hv. þingmanni að við erum ekki endilega alveg sammála um nálgun í þessu.

Af því að hv. þingmaður fór ansi stórum orðum um ákveðin mál og ég hjó eftir setningunni að hann telur ekki að nokkurri þjóð, ef ég hef rétt eftir, hv. þingmaður, hafi dottið þetta í hug þá vísaði ég hér sérstaklega í nýsamþykkta löggjöf um fjarskipti sem er jú hrein og klár innleiðing frá Evrópusambandinu á grundvelli þess að við erum í EES. Þar eru fjarskiptatíðnir skilgreindar sem auðlind í þjóðareign. Ég hygg að ég hafi tekið rétt eftir af því að það er textinn eins og hann í rauninni kemur, enda snýst þetta um úthlutun takmarkaðra gæða þar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann vílar það ekki fyrir sér að segja að við skattleggjum þá bara raforkuframleiðslu eins og okkur sýnist en sannarlega geti einhverjar aðstæður miðað að því að það sé gert með einhverjum hætti: Gæti hv. þingmaður upplýst okkur um hvernig hann sæi fyrir sér — hann skilur sannarlega það sem við erum að vísa í og reyna að ná fram með þessari tillögu þótt hann sé ekki endilega sammála leiðinnni, eins og ég skildi hann — að best væri að gera það svo að við næðum þá fram þeim markmiðum að sannarlega fengjum við öll hlutdeild í því sem ég vil meina að sé sameign okkar allra?