Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi.

81. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um undirbúning að stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Þórarinn Ingi Pétursson, Gísli Rafn Ólafsson og Steinunn Þóra Árnadóttir. Tillaga svipaðs efnis var fyrst flutt á 138. löggjafarþingi en hefur síðan verið endurflutt nokkrum sinnum, síðast á 151. þingi, þá í breyttri mynd og nú flutt aftur án verulegra breytinga.

Hún er einföld, þessi tillaga:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra í samvinnu við innviðaráðherra og dómsmálaráðherra að skipa starfshóp til að kanna grundvöll fyrir stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi, kosti þess og galla. Starfshópurinn skili niðurstöðu sinni til ráðherra eigi síðar en 1. febrúar 2024.“

Virðulegi forseti. Hér á landi búum við yfir mikilli þekkingu á björgunarmálum, bæði hjá opinberum aðilum og félagasamtökum. Hérna hafa aðstæður einfaldlega krafist þess. Íslenskt björgunarfólk hefur reynslu af björgun úr sjávarháska, er vant að takast á við foráttuveður á landi, snjóflóð, jarðskjálfta, björgun af jöklum, umfangsmiklar leitir á erfiðum landsvæðum o.s.frv. Allt þetta þekkjum við. Þá hefur einnig skapast í landinu mikil þekking á viðbrögðum við eldgosum líkt og kom í ljós í tengslum við eldgosin t.d. í Eyjafjallajökli og í flóðum tengdum þeim vorið 2010. Sömuleiðis í viðbrögðum við gosið í Grímsvötnum og flóðum á Mýrdalssandi. Þá hafa jarðhræringarnar á Reykjanesskaga undangengin ár og eldgosið í Geldingardölum enn bætt í reynslubanka íslensks björgunarfólks. Ein skýrasta birtingarmynd þessa var samhæfing viðbragðsaðila og þekking vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Virðulegi forseti. Íslenskar björgunarsveitir hafa einnig getið sér gott orð utan landsteinanna og tekið þátt í mikilvægum verkefnum erlendis, brugðist við ákalli hamfarasvæða og nýtt þekkingu sína við rústabjörgun eftir jarðskjálfta og flóð. Dæmi um þetta var t.d. framlag Slysavarnafélagsins Landsbjargar, ICE-SAR, við björgunarstörf á Haítí fyrir um áratug sem vakti athygli á alþjóðlegum vettvangi en Landsbjörg hefur frá árinu 1999 tekið þátt í samræmingarstarfi Sameinuðu þjóðanna og rekið ICE-SAR sem stofnað var með samkomulagi milli Landsbjargar, utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Það yrði hægt að byggja m.a. á þeirri dýrmætu og viðamiklu þekkingu sem til er og á grundvelli þeirra sambanda sem nú þegar hefur verið stofnað til. Hér eru kjöraðstæður fyrir ríki með veikar stoðir á þessu sviði að læra af reynslu Íslendinga og öðlast meiri þekkingu og færni við björgunarstörf. Það sáum við bara síðast nú á dögunum þegar okkar ágæta björgunarfólk kom heim úr erfiðum verkefnum eftir jarðskjálftastörf.

Árið 2012 fór fram sameiginleg björgunaræfing við austurströnd Grænlands á grundvelli samnings um leit og björgun frá 2011 og tóku íslenskir viðbragðsaðilar þátt í henni. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra er nú unnið að því að þróa samstarf við önnur ríki um öryggissamvinnu í nágrenni Íslands. Stofnun alþjóðlegs björgunarskóla gæti orðið mikilvægt innlegg í slíkt samstarf og styrkt stöðu Íslands innan Norðurskautsráðsins enn frekar. Mikilvægi norðurslóða fer sívaxandi og hlutverk innlendra björgunaraðila mun vafalítið fara vaxandi í því tilliti. Væntingar um að Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi á svæðinu með tilliti til björgunarmála hafa þegar risið.

Við nám í alþjóðlegum björgunarskóla mætti leggja áherslu á verklega og bóklega þætti, bæði vettvangsvinnu, þátttöku í raunverulegum aðgerðum á vettvangi, fyrirlestra, verkefnaskil og áætlanagerð og svo má lengi telja. Þá væri einnig hægt að gera ráð fyrir rannsóknar- og þróunarvinnu á sviði björgunarmála sem og samvinnu við stofnanir eins og Landhelgisgæsluna, almannavarnir, Veðurstofuna, sjúkrahúsin og háskólastofnanir auk Landsbjargar og t.d. sjómannasamtakanna. Stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi myndi sæma vel þeirri þekkingu sem íslenskt björgunarstarf býr yfir, styrkja ímynd lands og þjóðar á alþjóðavettvangi ásamt því að vera mikilvægt framlag til alþjóðasamstarfs.

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að ekki þurfi að leggja þetta mál fram í níunda sinn og að við sjáum sóma okkar í því að klára þetta. Það er eingöngu verið að biðja ráðherra um að kanna grundvöll fyrir stofnun slíks skóla og ég held að síðustu orðin eigi vel við, það myndi auka hróður okkar langt út fyrir landsteinana ef við myndum sjá um að slíkt yrði gert.