Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi.

81. mál
[18:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. framsögumanni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir bæði þessa þingsályktunartillögu og þá þrautseigju að vera að leggja málið fram aftur og aftur. Ég tek svo sannarlega undir með hv. flutningsmanni, við eigum ekki að láta það þurfa að gerast einu sinni enn að flytja þetta mál. Mun ég sjálfur leggja mitt á vogarskálarnar til þess, m.a. innan utanríkismálanefndar, sem mér skilst að málið fari til.

Eins og hv. þingmaður benti á er ekki verið að biðja um mikið í þessari þingsályktunartillögu. Ég held að það sé varla hægt að finna þingsályktunartillögu sem biður um mikið minna en að skipa starfshóp til að kanna grundvöll. Þarna er engin binding og nær enginn kostnaður við að kanna hvort þetta sé ekki góð hugmynd. En af hverju er þetta góð hugmynd? Jú, eins og hv. þingmaður benti á hér á undan þá búum við Íslendingar yfir mikilli þekkingu og ég myndi segja að það sé varla hægt að finna viðbragðskerfi í heiminum sem er jafn vel uppbyggt, sér í lagi af sjálfboðaliðum. Ég hef sjálfur tekið þátt í nokkrum Evrópusambandsverkefnum fyrir nokkrum árum síðan sem voru hluti af því að miðla þessari þekkingu um hvernig við byggjum okkar viðbragðskerfi á sjálfboðaliðum til nokkurra ríkja í Austur-Evrópu, Armeníu og Georgíu og mig minnir að Moldóva hafi verið þriðja landið. Þar vorum við að gefa þeim hugmyndir um það hvernig þeir gætu byggt upp sitt viðbragðskerfi, af því að þeir voru ekki með viðbragðskerfi, á því að nýta sjálfboðaliða eins og við gerum hér á Íslandi. Það er svo sannarlega mikil þörf á þessu. Ég veit að Íslendingar hafa líka tekið þátt í að byggja upp slíkt kerfi í Pakistan, rústabjörgunarteymi þar, og margt fleira.

Mér finnst líka virkilega viðeigandi að það sé mælt fyrir þessari tillögu í dag. Ég veit ekki hvort hv. framsögumaður gerði sér grein fyrir því þegar málið kom á dagskrá hér í dag að í dag er hinn alþjóðlegi dagur almannavarna, 1. mars. Þetta er ekki bara bjórdagurinn mikli, þetta er líka dagur almannavarna. Það er því vel við hæfi á þeim degi að við leggjum til að kannað verði hvort ekki sé hægt að byggja upp alþjóðlegan björgunarskóla á Íslandi.

Þörfin á því að miðla þekkingu á þessu sviði hefur sjaldan verið jafn mikil og akkúrat núna. Við erum að ganga í gegnum það að loftslagsbreytingar eru að orsaka meiri veðurfarshamfarir. Við erum líka að upplifa það að fólksflutningar í borgir orsaka það að hamfarir eins og jarðskjálftar og annað hafa meiri áhrif. Þegar fólk bjó dreifðara þá voru einfaldlega áhrif jarðskjálfta og annarra hamfara ekki eins mikil. Ég myndi vilja segja að GRÓ, sem ég hef nú alltaf gaman af að eru akkúrat upphafstafirnir mínir, þekkingarmiðstöðin fyrir þróunarsamvinnu sem við höfum rekið undir merkjum UNESCO — það er góð hugmynd að nýta þann góða grunn sem er þar og byggja upp eitt svið þar í viðbót.

En af hverju þurfum við að byggja upp þessa þekkingu? Jú, þeir leiðtogar heims sem sinna málefnum mannúðarsamstarfs og almannavarna og annars slíks komu saman í heiminum árið 2016 á ráðstefnu sem kölluð var World Humanitarian Summit og þar voru settar nokkrar meginstefnur um það hvernig við ætlum að sinna almannavörnum, mannúðaraðstoð og neyðarhjálp víða um heim. Eitt af grunnatriðunum sem þar var samþykkt var það sem má eiginlega kalla staðfæringu eða með leyfi forseta, á ensku, „localisation“, þ.e. við viljum miklu frekar að viðbragðsaðilar og viðbragðið við hamförum sé gert af fólkinu sem býr þar frekar en að við séum alltaf að senda erlenda aðila til að hjálpa. Eftir jarðskjálftann á dögunum í Tyrklandi þar sem yfir 50.000 manns létust sáum við að þar voru 100 rústabjörgunarteymi Tyrkja að störfum. Það voru 90 og eitthvað alþjóðleg teymi en 100 og eitthvað teymi frá Tyrkjum. Ímyndið ykkur ef við hefðum ekki verið búin að byggja upp þar þá þekkingu og reynslu. Ég fékk einmitt tækifæri til þess fyrir um áratug síðan að taka þátt í því starfi.

Þetta er eitt af því sem hefur fullt af tækifærum. Það er verið að fjármagna þetta á vegum Evrópusambandsins t.d. undir almannavarnasamstarfinu þar og undir hatti Sameinuðu þjóðanna, hvort sem það er mannúðarstofnunin, Flóttamannastofnunin eða Matvælastofnunin og þar er líka viðbragðsteymi sem við Íslendingar erum hluti af sem kallast á ensku UNDAC. Allt eru þetta aðilar sem eru með alls konar þjálfun, kennslu og þekkingarmiðlun í gangi en oft vantar staðinn, umhverfið og fólkið til að aðstoða við slíkt. Evrópusambandsverkefnin í þjálfun eru t.d. öll fjármögnuð af Evrópusambandinu og við höfum hingað til ekki tekið þátt í að fá slík verkefni hingað til lands. En við höfum tekið þátt í að setja upp slík námskeið og sjálfur hef ég kennt á mörgum þeirra erlendis. Þannig að það er kjörið tækifæri að nýta sér það sem er að gerast í Evrópu og þegar ég segi Evrópusambandinu þá vil ég leiðrétta það, það er almannavarnasamstarf Evrópu, sem ég er að tala um, þar eru 35 lönd, ekki bara 27 Evrópusambandslönd. Það er Ísland, það er öll gamla Júgóslavía og Úkraína og fleiri lönd sem taka þátt í því. Það er líka stórt net svokallaðra frjálsra félagasamtaka sem hægt er að nýta til þess að byggja upp þekkingu þeirra í alls konar hjálpar- og björgunarstarfi víða um heim.

Og af hverju Ísland? Jú, hingað komu meira að segja geimfararnir sem fóru til tunglsins í þjálfun. Við erum með umhverfi sem býður upp á að kenna björgunarstarf. Við erum með fólkið, þekkinguna, reynsluna, við höfum tekið þátt í þessu alþjóðlega samstarfi í tugi ára og það er kjörið tækifæri til þess að við tökum þessa hluti áfram. Það er svo sannarlega von mín að við hér á Alþingi getum tekið svona mikilvægt mál, afgreitt það hratt og auðveldlega og ekki verið að hugsa um einhverja flokkapólitík þegar kemur að því vegna þess að hér skiptir mannúðin öllu máli.