Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi.

81. mál
[18:13]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara koma hingað upp og lýsa ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu sem við erum að ræða um, stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi eða að skoða kosti og galla þess að setja slíka stofnun á laggirnar hér á landi. Án þess að hafa um það langt mál þá er ég alveg sannfærður um að slíkur skóli hér á landi á svo sannarlega rétt á sér. Við þurfum að horfa bæði til þess hvað við getum kennt öðrum og að læra af þeim sem hingað koma.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð hversu mikilvægar björgunarsveitirnar og viðbragðsaðilar eru á þessu hrjóstruga og vindasama og stundum illviðrasama landi og sú reynsla og þekking sem hefur skapast hér í björgunarstörfum við aðstæður sem eru kannski framandi fyrir marga er alveg gríðarleg. Íslenskir björgunaraðilar eru mjög framarlega á mörgum sviðum á heimsvísu. Við þekkjum t.d., af því að það er ekki langt síðan við ræddum hér í þessum þingsal, hlutverk Landhelgisgæslunnar sem björgunaraðila varðandi þyrlur og flugvélar og annað sem þeir hafa upp á að bjóða og hæfni íslensku flugmannanna, þyrluflugmannanna sérstaklega, í aðstæðum sem varla nokkur myndi láta sér detta í hug að fara út í. Þeir eru ekki bara að fljúga áfram heldur aftur á bak. Ég held að reynslan sé til staðar hérna heima. Það er alveg gríðarlega mikilvægt ef þessi skóli verður að veruleika, sem ég svo sannarlega vona, bæði fyrir þá þekkingu sem við gætum sent frá okkur en ekki síður fengið þekkingu fyrir okkar viðbragðsaðila sem myndu bæta í þá verkfærakistu sem viðbragðsaðilar eru með hér heima. Það væri gríðarlega mikilvægt og ég vona það svo innilega að þetta mál fái brautargengi vegna þess að þetta er alveg afskaplega mikilvægt og gott verkefni. Bara eitt dæmi sem mér dettur í hug er samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð. Okkur finnst þetta nú bara tiltölulega einfalt apparat og tökum þessu eins og sjálfsögðum hlut. Þetta var ein af fyrstu samhæfingarmiðstöðvunum sem var sett á laggirnar í heiminum. Menn hafa komið frá, ég veit ekki hvað mörgum löndum og borgum til að skoða þessa samhæfingarmiðstöð vegna þess að hún er algjör snilld og hefur reynst alveg gríðarlega vel í þessum erfiðu verkefnum sem við höfum verið að fást við síðustu ár. Þar koma allir þessir aðilar saman á einn stað og miðla þekkingu sinni og reynslu og eru til taks hver fyrir annan að meta og vega aðstæður og hafa stuðning hver af öðrum við ákvarðanatöku. Þetta er bara eitt dæmi um það hvað við Íslendingar höfum verið framarlega í þessum málum, Slysavarnaskóli sjómanna, hverju hefur hann skilað okkur? Það er ekkert langt síðan og maður þarf ekki annað en að lesa árbækur sem voru gefnar út 1980–1985 þar sem var sérstakur kafli í bókunum sem hét Slys og slysfarir. Þar var talað um flugslys, sjóslys, drukknanir. Þetta er bara fáheyrt í dag. Af hverju? Vegna þess að við höfum náð árangri á þessum sviðum. Við höfum farið í forvarnir og ekki bara forvarnir heldur höfum við farið í aðgerðir til að sporna við og minnka líkurnar á að slíkir atburðir gerist. Ég er alveg sannfærður um að við getum lagt mikið af mörkum í slíkum skóla og fagna þessari tillögu mjög.

Talandi um þetta verkefni, þá höfum við rætt og það hefur komið upp alltaf annað slagið í umræðunni varðandi leit og björgun á norðurslóðum að þar eigum við Íslendingar gríðarleg tækifæri. Það er ekkert land betur staðsett en Ísland hvað varðar slíka starfsemi. Ekki það að ég vilji eitthvað vera að flækja þessa tillögu en ég held að það sé ágætt að við horfum á þetta líka í stóra samhenginu. Það er alveg klárt í mínum huga að þarna eru samlegðaráhrif á milli, ef þú ert með leitar- og björgunarmiðstöð og ert með þennan skóla samhliða, eða ekki, en ef við erum með þetta hvort tveggja hér þá erum við náttúrlega komin í alveg gríðarlega mikilvæga og góða stöðu varðandi framtíðina í leitar- og björgunarmálum okkar Íslendinga.

Ég ætla að setja punktinn hér, þakka framsögumanni og þeim sem eru á þessari tillögu fyrir að vekja máls á þessu og koma með málið inn í þingið. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga nái fram að ganga og við látum a.m.k. skoða kosti og galla að þessi starfsemi komi hingað til lands, sem er alveg klárt í mínum huga að mun bara vera jákvætt.