153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér kemur þriðji formaðurinn í röð og segir: Við erum að gera fullt. En samt er verðbólgan þar sem hún er og samt höfum við staðið frammi fyrir 11 vaxtahækkunum í röð. Það er ekkert plan í gangi hjá ríkisstjórninni — ekkert plan. Ég lagði fram fyrirspurn fyrir fimm mánuðum til hæstv. matvælaráðherra sem verður svarað í dag um það hvað eigi að gera til þess að hjálpa til við að lækka matarkörfuna. Ríkisstjórnin er búin að hafa nægan tíma til að bregðast við núna.

Já, við þurfum líka lengra tímaplan því að þetta þarf ekki að vera svona. Okkur greinir auðvitað á um leiðir til lengri tíma, en hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til skemmri tíma? Við heyrum Vinstri græna tala um skattahækkanir í ýmsu formi og Sjálfstæðisflokkinn boða aðhald einhvern tíma á fjárlögum næsta árs en við þurfum aðgerðir núna. Framsókn kemur og skilar auðu og það er eins og hún sé ekki í þessari ríkisstjórn. Þrátt fyrir allt þá leiðir samsetning þessarar ríkisstjórnar til þess að við erum með ósjálfbæran ríkissjóð sem er skilað í halla til næstu ára og verið er að velta byrðum nútímans yfir á börnin okkar í framtíðinni. (Forseti hringir.) En ríkisstjórnin skilar auðu og mér finnst miður að hún geti ekki drattast til þess að koma með aðgerðir sem hjálpa heimilunum í landinu núna, ekki eftir eitt ár, ekki eftir tvö ár og ekki eftir fimm ár.