153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

rafræn ökuskírteini.

[15:35]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta hérna upp. Ég heyrði hv. þingmann kvarta undan þessu á þingdögum í síðustu viku og varð eiginlega hvumsa við vegna þess að ég mundi eftir þessari fyrirspurn og hélt satt best að segja að henni væri löngu svarað, ég var búinn að biðja mitt fólk í ráðuneytinu að fara ofan í það. Ég treysti mér ekki til að svara fyrirspurninni til hlítar hér. En þegar rafræn skírteini voru kynnt til sögunnar voru þau fyrst og fremst kynnt til sögunnar til notkunar á Íslandi. Það kom síðar fram að menn þyrftu að hafa tiltekinn lesara til þess að þau væru nægilega örugg og þess vegna hafa aðilar á Íslandi í einhverjum tilvikum, hv. þingmaður nefndi bankanna, ekki tekið þau gild. En mér er samt kunnugt um að þau eru tekin gild á ýmsum öðrum stöðum, eins og í apótekum t.d., ég hef alla vega upplifað það og reyndar víðar.

En það er hins vegar algjörlega rétt að þau voru ekki kynnt til sögunnar sem alþjóðleg skírteini. Við vorum einfaldlega ein af fyrstu þjóðunum sem tóku þetta upp. Ég, sem þáverandi samstarfsráðherra Norðurlanda og auðvitað bara í samgönguráðherrahópnum á Norðurlöndunum, var að reyna að fá öll Norðurlöndin til að byrja að viðurkenna þetta. Norðmenn eru líka komnir með rafræn skírteini og ég held að fleiri þjóðir séu komnar með þetta núna í dag. Stundum er rætt hérna um Evrópusambandið og sum lönd á Norðurlöndunum geta aldrei gert neitt nema Evrópusambandið sé búið að samhæfa þetta þannig að við höfum svolítið beðið eftir því. Alla vega hefur sú vinna ekki gengið upp að Norðurlöndin væru komin með þetta, sem mér myndi þykja gott fyrsta skref. En við höfum aldrei gefið það til kynna að þessi rafrænu skírteini gildi hér og þar um heiminn, ef ég þekki það rétt. En ég ætla að bíða eftir því að fá allar upplýsingar í fyrirspurninni og ég vona að hv. þingmaður fái svarið sem allra allra fyrst.