153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

rafræn ökuskírteini.

[15:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Aðeins um rafrænu skírteinin. Auðvitað er það þannig að við ferðumst hingað og þangað og stundum er það ekki einu sinni þannig að þetta bleika gildi og maður þarf að hafa alþjóðlegt skírteini með. En auðvitað er það óheppilegt ef eitthvað slíkt kemur upp á. Við erum mjög vön því að nota kort hér á Íslandi, ekki seðla, og sums staðar virkar það nú bara alls ekki heldur þannig að við þurfum svolítið að vita þegar við erum að fara út í heim að heimurinn er ekki á sama stað og Ísland. Við erum oft komin dálítið framar.

Varðandi borgarlínuna, sem mér heyrðist hv. þingmaður kalla óborgarlínuna, ég veit ekki hvort það var misheyrn hjá mér, þá heyrist mér hv. þingmaður enn vera að glíma við að líta á þetta sem eitthvert svona útgjaldaapparat en hafi ekki sett sig inn í nákvæmlega hugmyndafræðina. Við erum að reyna að byggja sérreinar þannig að vagnar sem keyra oftar komi fólki, meiri fjölda, hraðar á milli stærri staðanna. Það er hugmyndafræðin. Ég hef enn mikla trú á að þetta geti gengið eftir. En vissulega hefur kostnaður við þetta vaxið, (Forseti hringir.) eins og reyndar svo margt annað á síðustu tveimur, þremur árum.