Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sjálfstæði ríkisendurskoðanda er eitthvað sem við höfum dálítið rætt í tengslum við þetta mál, en settur ríkisendurskoðandi var líka sjálfstæður í sínum störfum. Hann var trúnaðarmaður Alþingis í máli þar sem ríkisendurskoðandi var vanhæfur vegna fjölskyldutengsla. Þegar það vanhæfismóment gufaði upp hjá Ríkisendurskoðun steig settur ríkisendurskoðandi til hliðar, skilaði greinargerð til þingsins og ætlaðist til að hún yrði hluti af hinni þinglegu meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í málinu. Sú nefnd getur ekki fjallað um greinargerðina í trúnaði. Við sem fulltrúar almennings höfum ekkert að gera með upplýsingar sem eru bundnar slíkum trúnaði að við megum ekki fjalla um þær á opinberum vettvangi. Það segir sig sjálft, forseti. Þess vegna er forseti orðinn einangraður í leyndarhyggjunni í forsætisnefnd en við sjáum í atkvæðagreiðslunni hér á eftir hvort hann (Forseti hringir.) eigi kannski fleiri samherja um að halda leyndinni yfir þessari skýrslu.