Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:37]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Við erum búin að spyrja á þessu þingi: Getum við fengið að sjá þessa greinargerð? Svarið var nei. Þá spyrjum við: Af hverju megum við ekki sjá þessa greinargerð? Út af einhverju lögfræðiáliti. Getum við fengið að sjá lögfræðiálitið? Nei. Þetta var bara forseti. Í forsætisnefnd sjálfri vilja allir að greinargerðin verði gerð opinber nema forseti. Það eru gríðarleg vonbrigði að sjá hérna meiri hluta þingsins verja þá gerræðislegu afstöðu forseta þingsins sem er eingöngu til þess að verja formann Sjálfstæðisflokksins. Við vitum það öll að þetta hefur ekkert með lög að gera. Við erum ekki að fylgja neinum lögum hérna. Ef lögin eru skýr þá eru þau skýr um það að við eigum rétt á að bera fram þessa fyrirspurn. Af hverju er það lagt í hendur þingsins sjálfs að kjósa um hana ef þetta ef svona ægilega skýrt? Jú, vegna þess að þegar upp er staðið er þetta pólitísk ákvörðun og það er pólitísk niðurstaða hér á þessu þingi að við fáum ekki svör við spurningum. Hún er ekki lögfræðileg. Það eru engin lögfræðileg rök fyrir því að synja þessari fyrirspurn. (Forseti hringir.) Þetta skal vera á hreinu. Ég segi já.