Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

Sundabraut og samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

768. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst við ræðum hér um efndir á samgöngusáttmálanum getum við ekki látið hjá líða að ræða Sundabrautina, samgöngubótina sem við höfum beðið eftir í a.m.k. 30 ár og var m.a. forsenda þess að Kjalarnes sameinaðist Reykjavík árið 1997. Í sáttmálanum er svokallaður Sæbrautarstokkur sagður ein forsenda hugmynda um Sundabraut en stokkurinn er forgangsverkefni samkvæmt sáttmálanum. Þá er í sáttmálanum lögð áhersla á greiða tengingu Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins. Ég hefði að vísu byrjað á hinum endanum. Ég hefði sett Sundabrautina í forgang enda hlýtur tengingin við Sæbrautarstokkinn að fara eftir endanlegri útfærslu Sundabrautarinnar. En gott og vel. Hæstv. ráðherra hefur auðvitað sjálfur farið yfir þann gríðarlega ábata sem mun hljótast af Sundabrautinni og við ráðum varla við mörg hundruð milljarða kr. verkefni í einu, eða hvað? En þar sem hæstv. ráðherra hefur undirritað samkomulag þess efnis er mikilvægt að við sem vonumst til að lifa það að sjá Sundabrautina verða að veruleika fáum að vita stöðuna á verkefnum sem hafa verið sett í beint samhengi við Sundabrautina.